„Lífið er stutt, haltu framhjá“

Eduardo Borges, fulltrúi Ashley Madison í Brasilíu.
Eduardo Borges, fulltrúi Ashley Madison í Brasilíu. AFP

Viltu halda framhjá makanum? Þá er stefnumótaþjónustan Ashley Madison fullkominn staður fyrir þig. Slagorð hennar er: „Lífið er stutt. Haltu framhjá.“

Síðan opnað var fyrir þessa þjónustu í Brasilíu fyrir 15 mánuðum, hefur yfir milljón manns skráð sig á síðuna þar í landi. Þar með eru Brasilíumenn orðnir fjölmennasti hópurinn sem notar þjónustuna sem er upprunnin í Kanada.

Stefnumótasíðan Ashley Madison fór í loftið fyrir áratug. Slagorð hennar er: „Lífið er stutt. Haltu framhjá.“

Nú er þjónustunni haldið úti í 24 löndum og eru notendurnir átta milljónir í Bandaríkjunum einum og sex milljónir í Kanada.

En Brasilíumenn hafa tekið hraðast við sér. 70% notendanna eru karlmenn.

„Brasilíumenn eru nautnaseggir og eru hneigðir til kynlífs og skemmtunar,“ segir  Eduardo Borges, fulltrúi fyrirtækisins í Brasilíu.

Borges segir fyrirtækið ekki hvetja til framhjáhalds en veiti upplýsingar um þá valmöguleika sem séu í boði.

„Við byrjuðum í Brasilíu seint í ágúst árið 2011. Við bjuggumst við 500 þúsund notendum á einu ári en við náðum yfir 800 þúsund. Og við verðum komin yfir milljón áður en árið er úti,“ segir Borges.

Um 17 milljónir eru skráðir í stefnumótaþjónustuna um allan heim. Stefnumótaþjónustur eru mjög vinsælar í Brasilíu.

Ashley Madison var búin til með konur í huga. Þær þurfa ekki að borga til að skrá sig. Karlar þurfa hins vegar að borga fyrir þjónustuna. Fyrir hverjar samræður sem stofnað er til á síðunni þarf að borga - ekki er falast eftir föstu áskriftargjaldi.

Og nú er farið að bjóða fólki endurgreiðslu, uppskeri það ekki ástarævintýri í gegnum stefnumótasíðuna.

„Enn sem komið er hefur enginn beðið um endurgreiðslu,“ segir Borges.

David Benoliel, varaforseti fyrirtækisins í Suður-Ameríku segir viðtökurnar hafa verið frábærar, þrátt fyrir margskonar „tepruskap í kringum trúarbrögðin.“

Yfirmenn fyrirtækisins segja að framhjáhald sé fullkomin uppskrift að því að bjarga hjónabandinu frá leiðindum hversdagsins. „Ef það er eitthvað sem vantar í hjónabandið, en þú vilt samt ekki skilja höfum við eitthvað fyrir þig,“ segir Borges.

Eduardo Borges: „Ef það er eitthvað sem vantar í hjónabandið, …
Eduardo Borges: „Ef það er eitthvað sem vantar í hjónabandið, en þú vilt samt ekki skilja höfum við eitthvað fyrir þig.“ AFp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert