Upphafi nýrrar hringrásar í tímatali maya fagnað

Milljónir ferðamanna eru í Mexíkó og Mið-Ameríkulöndum til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af því að í dag lýkur dagatali maya-indíána, svonefndri löngu talningu sem hófst 11. ágúst árið 3114 fyrir Krist að okkar tímatali.

Maya-indíánar voru menningarþjóð sem réð ríkjum í sunnanverðu Mexíkó og Mið-Ameríku á árunum 250 til 900 eftir Krist.

Með löngu talningu voru tvö eldri tímatöl maya-indíana sameinuð. Annars vegar var það sólartímatalið sem var notað við dagleg störf og samanstóð af 365,242129 dögum, en það er talið nákvæmara en gregoríska tímatalið okkar með 365,242500 daga. Hins vegar var það heilaga tímatalið, sem samanstóð af 260 dögum og maya-indíánar notuðu við trúarlegar athafnir. Samkvæmt því voru aldirnar taldar í hingrásum sem fólu í sér 5.125,40 ár.

Samkvæmt tímatali maya verða aldahvörf í dag, 21. desember. Þá hefst ný hringrás með nýrri skipan milli jarðarinnar og himingeimsins.

Nýtt upphaf – ekki heimsendir

Margir dómsdagsspámenn, þeirra á meðal nýaldarspekingar, hafa skírskotað til löngu talningar og spáð því að heimurinn farist í dag. Sérfræðingar í tímatali maya segja hins vegar ekkert benda til þess að þeir hafi talið að heimsendir verði daginn sem löngu talningu lýkur. Tímatal þeirra sé endalaust og nýtt tímabil hefjist þegar núverandi dagatali ljúki.

Alvaro Pop, mannfræðingur í Gvatemala, segir að langa talning sé ekki aðeins dagatal. „Hún er líkan sem sýnir hreyfingar himinhnattanna og hringrás þeirra áhrifa sem þær hafa á líf mannanna,“ hefur fréttaveitan AFPeftir Pop. Hann segir að mayar hafi m.a. notað tímatalið til að komast að áhrifum himinhnatta á sjávarföll, fæðingar og plöntur.

Mayar tóku einnig tímatalið upp til að geta skráð sögu sína. Siðmenning maya náði hámarki á árunum 250 til 900 eftir Krist. Auk stjarnfræði voru þeir framarlega á sviði stærðfræði, myndlistar, arkitektúrs og landbúnaðar á blómaskeiði sínu. Mayar urðu t.a.m. fyrstir til að rækta maís fyrir um 3.000 árum og voru meðal þeirra fyrstu til að nota og rækta kakóbaunir.

Tímamótanna verður minnst með flugeldasýningum, tónleikum og fleiri viðburðum á u.þ.b. 40 stöðum í Mexíkó og Mið-Ameríku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert