NRA: Ráðist á skotvopn og börn hunsuð

Samtök bandarískra byssueigenda (NRA) gagnrýna tillögur Barack Obama Bandaríkjaforseta um herta byssulöggjöf harðlega. Samtökin segja að það „að ráðast á skotvopn og hunsa börn er engin lausn“.

„Þetta mun aðeins bitna á heiðarlegum og löghlýðnum byssueigendum og börnin okkar munu verða berskjaldaðri gagnvart frekari harmleikjum,“ segir í yfirlýsingu sem NRA sendi frá sér eftir að Obama hefði kynnt tillögur sínar í Hvíta húsinu í dag.

Forsetinn vill banna sölu á hríðskotavopnum og skothylkjum sem geta geymt mörg skotfæri. Þá vill hann herða allt eftirlit með fólki sem hyggst kaupa skotvopn.

Samtökin eru algjörlega mótfallin hertri byssulöggjöf en tekur fram að samtökin séu reiðubúin að stuðla að auknu öryggi og að byssueigendur hagi sér með ábyrgum hætti.

„Aðalmarkmið okkar er að tryggja öryggi barnanna okkar og samfélagsins,“ segir NRA.

Samtökin segjast ætla að halad áfram að stuðla að öryggi barna, tryggja öryggi í skólum, bæta geðheilbrigðiskerfi landsins og sækja ofbeldismenn til saka.

„Við hlökkum til að starfa með Bandaríkjaþingi á þverpólitískum grundvelli í þeim tilgangi að finna raunverulegar lausnir á því hvernig við getum verndað dýrmætustu eign Bandaríkjana — börnin okkar,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert