Spáir versnandi sambúð Þjóðverja og Frakka

Francois Fillon, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, óttast að sambúðin við Þjóðverja …
Francois Fillon, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, óttast að sambúðin við Þjóðverja eigi eftir að stirðna. mbl.is/reuters

Francois Fillon, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, sagðist í dag „sjaldan séð svo slæma sambúð“ Þjóðverja og Frakka og þessa dagana. Segist hann óttast að tengsl landanna tveggja eigi eftir að versna enn frekar, og þá sérstaklega eftir kosningar í Þýskalandi í haust.

„Við höfum sjaldan séð tengslin svo slæm milli Frakklands og Þýskalands,“ sagði Fillon í dag í Berlín, þar sem hann er í heimsókn. „Ég óttast, að eftir þingkosningar í Þýskalandi muni sambúðin stirðna enn frekar,“ sagði Fillon, sem nú er óbreyttur þingmaður.

Kosningarnar fara fram 22. september og freistar Angela Merkel að stjórn sín haldi velli í þeim. 

„Allt er í biðstöðu sem stendur, þar á meðal markaðirnir, og um leið og kosningarnar eru afstaðnar munum við þurfa að takast á við raunveruleikann. Þá verður spurt hvort við virðum stöðugleikasáttmálann, hvort við séum að reyna auka samkeppnishæfnina,“ sagði Fillon.

Hann hefur í dag fundað með þýskum leiðtogum og embættismönnum, þar á meðal Wolfgang Schaeuble fjármálaráðherra. Sagði hann viðræðuaðila sína hafa lýst áhyggjum af stöðu sambúðar Frakklands og Þýskalands, af efnahagsástandinu í Frakklandi og látið í ljós ótta við vaxandi andúð í garð Þýskalands í Frakklandi í stjórnartíð Francois Hollande forseta.

„Þið eru með forseta sem bíður þess að Merkel falli og telur með því sjálfum sér trú um að eftir þýsku kosningarnar opnist möguleiki á verulegri breytingu í efnahagsstefnu Þýskalands og Evrópu,“ hefur Fillon eftir þeim sem hann ræddi við. Sagði hann þessa þróun alvarlega og mistök af hálfu forsetans. „Allt er á þá lund að í sundur slitni með Frakklandi og Þýskalandi.“

Fillon var forsætisráðherra í valdatíð Nicolas Sarkozy en þáverandi forseti og Merkel náðu einkar vel saman og var snemma tekið upp á því að ræða um þau í einu lagi sem „Merkozy“. Segir Fillon, að Hollande hafi aldrei getað fyrirgefið Merkel fyrir að lýsa stuðningi við Sarkozy er hann leitaði eftir endurkjöri í forsetakosningunum fyrir ári.

Í kosningabaráttunni hét Hollande að berjast gegn aðhaldsstefnu Merkel gagnvart efnahagskreppunni á evrusvæðinu og sagðist hlynntur því að hagvöxtur yrði aukinn með auknum ríkisútgjöldum. Slíkum tillögum hefur Merkel ætíð hafnað og segir eina hagvöxtinn sem sé sjálfbær sé sá sem byggist á aðhaldssemi í fjármálum.

Hollande og Merkel.
Hollande og Merkel. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert