Hinsegin hjónabönd um allan heim

Frá Gay Pride í París.
Frá Gay Pride í París. AFP

12 ár eru liðin síðan Holland reið á vaðið og lögleiddi hinsegin hjónabönd, fyrst ríkja heims. Þróunin fór hægt af stað en hefur orðið sífellt hraðari síðustu ár og í dag varð Bretland 15. ríkið til að jafna rétt fólks til hjónabands óháð kynhneigð.

Hér að neðan má sjá lista þeirra ríkja heims sem hafa lögleitt hinsegin hjónabönd:

Holland: Árið 2001 urðu hinir frjálslyndu Hollendingar frumkvöðlar í jafnréttismálum með því að tryggja jafnan rétt til hjónabands með lögum. Samkynhneigðum hjónum er einnig heimilt að ættleiða börn í Hollandi.

Belgía: Réttindi samkynhneigðra para eru nánast þau sömu og gagnkynhneigðra. Árið 2003 voru hinsegin hjónabönd lögleidd og árið 2006 bætti þingið um betur með því að samþykkja lög sem heimilar samkynhneigðum hjónum að ættleiða börn.

Spánn: Árið 2005 urðu Spánverjar þriðju til þess að lögleiða hjónabönd hinsegin fólks. Þá mega samkynhneigð pör ættleiða börn lögum samkvæmt, óháð því hvort þau ganga í hjónaband.

Kanada: Árið 2005 voru lög um jafnan rétt til hjónabands og ættleiðinga samþykkt á alríkisstigi, en flest ríki Kanada höfðu þá þegar samþykkt hjónabönd samkynhneigðra á eigin forsendum.

Suður-Afríka: Fyrsta Afríkuríkið til að jafna rétt hinsegin fólks til hjónabands og ættleiðinga, árið 2006.

Noregur: Hjónabönd og ættleiðingar óháð kynhneigð lögleidd árið 2009. Áður hafði óvígð sambúð samkynhneigðra verið viðurkennd með lögum í 20 ár.

Svíþjóð: Skandinavíuríkin voru samtaka því árið 2009 voru hjónavígslur samkynhneigðra Svía lögleiddar.

Portúgal: Árið 2010 voru hjónabönd samkynhneigðra samþykkt með lögum, en ættleiðingar eru enn óheimilar hinsegin fólki.

Ísland: Jóhanna Sigurðardóttir, fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra heims, gekk í hjónaband með eiginkonu sinni í júní 2010, um leið og lög þess efnis tóku gildi. Frá árinu 2006 hafa samkynhneigð pör mátt ættleiða, eftir 5 ár í sambúð.

Argentína: Fyrsta ríki Suður-Ameríku til að lögleiða hjónabönd hinsegin fólks, mánuði á eftir Íslandi í júlí 2010. Á sama tíma voru lög um ættleiðingar samþykkt.

Danmörk: Fyrsta ríki heims til að lögleiða óvígða sambúð hinsegin fólks árið 1989. Hjónavígslur voru lögleiddar 23 árum síðar, í júní 2012.

Úrúgvæ: 10. apríl 2013 samþykkti þjóðþing Úrúgvæ frumvarp til laga um hinsegin hjónabönd. Tvö ríki Suður-Ameríku tryggja nú slíkt jafnrétti með lögum.

Nýja-Sjáland: Fyrsta ríki Eyjaálfu til að lögleiða hjónabönd hinsegin fólks, 17. apríl 2013, eftir áratuga langa réttindabaráttu.

Frakkland: Lög um hjónabönd og ættleiðingar samkynhneigða voru samþykkt eftir fjögurra mánaða harðar deilur og götumótmæli 18. maí 2013.

Bretland: Elísabet II. drottning staðfesti lög um hjónabönd hinsegin fólks í Englandi og Wales í dag. Í Skotlandi og á Norður-Írlandi eru hjónavígslur samkynhneigðra þó enn ólöglegar.

Leyft að hluta

Auk þessara 15 ríkja eru nokkur lönd til viðbótar sem hafa slakað á löggjöfinni án þess þó að fara alla leið.  Í sumum ríkjum Mexíkó eru hjónavígslur hinsegin fólks t.d. löglegar sem og í 13 ríkjum Bandaríkjanna, og höfuðborginni Washington DC. Þá komst hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu í júní að alríkislög sem skilgreindu hjónabönd sem einingu karls og konu brytu gegn stjórnarskránni.

Í Brasilíu var í raun og veru gefið grænt ljós á hjónabönd hinsegin fólks í maí síðastliðnum, eftir að hæstiréttur úrskurðaði að ríkisstofnunum væri heimilt að gefa út vottorð um hjónabönd samkynhneigðra þrátt fyrir að þingið sem slíkt hafi ekki samþykkt lög þess efnis.

Þá eru nokkur lönd sem viðurkenna óvígða sambúð hinsegin fólks. Það eru Þýskaland (2001), Finnland (2012), Tékkland (2006), Sviss (2007), Kólumbía (2011) og Írland (2011).

Samkynhneigðir mega lögum samkvæmt ganga í hjónaband í 15 ríkjum …
Samkynhneigðir mega lögum samkvæmt ganga í hjónaband í 15 ríkjum heims. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert