Dansarinn var ástkona skipstjórans

Francesco Schettino skipstjóri á Costa Concordia.
Francesco Schettino skipstjóri á Costa Concordia. STRINGER/ITALY

Dansari frá Moldavíu, sem var um borð í Costa Concordia þegar skipið strandaði í janúar á síðasta ári, hefur viðurkennt að hún átti í ástarsambandi við Francesco Schettino, skipstjóra skipsins.

Schettino hefur verið ákærður fyrir að bera ábyrgð á dauða 32 manna sem fórust þegar skipið strandaði og standa réttarhöldin yfir. Hann er einnig ákærður fyrir að yfirgefa skipið þrátt fyrir að fjöldi fólks væri það í neyð.

Domnica Cemortan kom fyrir rétt í dag og staðfesti að hún hefði átt í ástarsambandi við Francesco. Hún sagðist hafa verið við hlið hans í brúnni þegar skipið strandaði.

Francesco er 53 ára, giftur og á eina dóttur. Cemortan hafði áður neitað því við skýrslutöku að eitthvað væri til í þeim orðrómi að hún ætti vingott við skipstjórann. Þá sagði hún hins vegar að Schettino væri trúr konu sinni og hefði sýnt sér myndir af dóttur sinni. Einnig sagði hún skipstjórann hetju sem hefði með snörum viðbrögðum sínum um borð bjargað þúsundum mannslífa.

Vildi sigla nálægt eyjunni

Fyrr í dag sagði Antonello Tievoli, yfirþjónn á skipinu, að hann hefði beðið skipstjórann um að sigla  nálagt eyjunni Giglio þar sem fjölskylda hans býr. Hann hefði því siglt skipinu nærri eyjunni þegar hann fór þar framhjá 6. janúar. Francesco hefði hins vegar ekki verið ánægður með útkomuna og ákveðið að sigla enn nær eyjunni í næstu ferð. Það endaði með því að skipið strandaði og valt síðan á hliðina.

Francesco sagði fyrir dómi í síðustu viku að stýrismaður skipsins bæri ábyrgð á strandinu. Hann hafði ekki farið að fyrirmælum sínum.

Domnica Cemortan
Domnica Cemortan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert