Fundin sek um morð á dóttur sinni

Indversk hjón voru í dag fundin sek um að hafa myrt fjórtán ára gamla dóttur sína og þjón á heimili sínu árið 2008.

Hjónin, Rajesh Tawlar og eiginkona hans Nupur, voru dæmd sek um morð og að hafa spillt sönnunargögnum, samkvæmt frétt Times of India og AFP. Haft er eftir Talwars hjónunum að þau séu afar ósátt við niðurstöðu dómarans og að þau myndu áfrýja dómnum. Talwars hjónin hafa alltaf haldið fram sakleysi sínu.

Aarushi Talwar fannst myrt í herbergi sínu þann 16. maí 2008 og daginn eftir fannst lík Hemraj, þjóns á heimilinu, á þaki hússins. Þau höfðu bæði verið skorin á háls.

Hjónin grétu bæði þegar dómarinn, Shyam Lal, las upp niðurstöðuna í morgun. Þau segjast vera niðurbrotin yfir því að vera dæmd fyrir glæp sem þau frömdu ekki.

Refsingin verður kveðin upp á morgun en þau eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi eða að vera tekin af lífi.

Saksóknarar héldu því fram við réttarhöldin að þau hafi myrt dóttur sína eftir að hafa komið að henni með þjóninum, sem var 45 ára, við ósæmilegar kringumstæður.

Morðin hafa verið í kastljósi fjölmiðla í fimm ár eða allt frá því að lík dóttur Talwar fannst í herbergi hennar þann 16. maí 2008. Talwar fjölskyldan bjó í úthverfi Nýju-Deli og var sterkefnuð en þau eru tannlæknar.

Ferill málsins samkvæmt Times of India

Þann 18. maí 2008 greindi lögreglan frá því að morðingjarnir tengdust væntanlega fjölskyldunni og væru með þekkingu á skurðaðgerðum.

23. maí 2008 var Rajesh Talwar handtekinn fyrir morðið á dóttur sinni Aarushi og þjóninum Hemraj.

31. maí 2008 tók ríkislögreglustjóri (CBI) við rannsókn málsins.

13. júní var Krishna, félagi Rajesh Talwar handtekinn af CBI. Tíu dögum síðar var Raj Kumar, sem starfaði hjá lækni sem var vinur Talwars fjölskyldunnar og Vijay Mandal þjónn hjá nágrönnum fjölskyldunnar einnig handtekinn.

12. júlí var Rajesh látinn laus gegn tryggingu eftir að CBI tekst ekki að leggja fram sannanir gegn honum.

5. janúar 2010 óskar CBI eftir dómsúrskurði um að senda Talwar hjónin í lyfjapróf.

29. desember 2010 leggur CBI fram skýrslu þar sem málinu er lokað. Samkvæmt skýrslunni er það niðurstaða CBI að Rajesh væri sekur en ekki væru nægar sannanir gegn honum.

25. janúar 2011 er ráðist á Rajesh Talwar með kjötexi fyrir utan dómshúsið í Ghaziabad og hann særður djúpum sárum.

9. febrúar 2011 hafnaði sérstakur dómur í Ghaziabad lokaskýrslu CBI og fyrirskipar að Rajesh og Nupur Tawar verði ákærð fyrir morðið á Aarushi. Eins eru þau sökuð um að hafa spillt sönnunargögnum.

14. mars 2012 er farið fram á að lausn Rajesh Talwars gegn tryggingu verði afturkölluð.

30. aparíl 2012 er Nupur Talwar handtekin.

3. maí er beiðni Nupur Talwar um lausn gegn tyggingu hafnað.

25. maí 2012 eru Rajesh og  Nupur Talwar ákærð fyrir morðin, að hafa spillt sönnunargögnum og samsæri.

25. september er Nupur Talwar látin laus gegn tryggingu samkvæmt dómi hæstaréttar.

20. apríl 2013 greinir saksóknari CBI frá því fyrir dómi að Talwar hjónin hafi myrt Aarushi og Hemraj. Eins að þau hafi sést í vafasömum stellingum.

3. maí fer vörnin fram á að fjórtan manns, þar á meðal yfirmaður CBI, verði kölluð fyrir réttinn sem vitni. CBI leggst gegn beiðninni.

6. maí er beiðni Talwars hafnað um að vitnin verði leidd fyrir dómara.

18. október 2013 flytja sækjendur CBI lokaskýrslu þar sem meðal annars kemur fram að Talwars hjónin hafi leitt rannsóknina á villigötur.

12. nóvember 2013 tilkynnt um að dómur verði kveðinn upp þann 25. nóvember.

25. nóvember eru Talwar hjónin dæmd sek um tvöfalt morð.

Verða foreldrarnir fundnir sekir

Rajesh Talwar
Rajesh Talwar AFP
Nupur Talwar
Nupur Talwar AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert