H&M þarf að hækka verð

Tískuvörukeðjan H&M sér fram á að þurfa að hækka verð …
Tískuvörukeðjan H&M sér fram á að þurfa að hækka verð í framtíðinni. H&M.com

Sænska tískuvörukeðjan H&M, sem þekkt er fyrir bjóða upp á vörur á lágu verði, sér fram á að þurfa í framtíðinni að hækka verð vara sinna til þess að geta borgað starfsmönnum sínum í fátækari löndum heims hærri laun.

Þetta kom fram á fundi H&M með þrýstihópum í Stokkhólmi. Á fundinum lýsti H&M því yfir að til stæði að hækka launataxta þeirra sem starfa í textílverksmiðjum í löndum á borð við Bangladess þar sem lágmarkslaunin eru lægri en 250 krónur á dag.

Helena Helmersson, yfirmaður þróunardeildar hjá H&M, sagði hugsanlegt að hækka þyrfti verð á fatnaði til lengri tíma en þó þyrftu neytendur ekki að hafa áhyggjur af hærra vöruverði í nánustu framtíð.

„Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið staðfestir vilja til að hækka vöruverð og neytendur eru í stakk búnir fyrir það,“ sagði Viveka Risberg frá Swedwatch, fyrirtæki sem sér um að veita alþjóðlegum fyrirtækjum aðhald.

„Það mun taka mörg ár að hækka laun þeirra í Bangladess svo mannsæmandi sé en ég er bjartsýnni nú þegar allir sýna vilja til þess að aðhafast í málinu; ríki, verkalýðsfélög, fyrirtæki og starfsmenn.“

Í nóvember kynnti H&M nýja stefnu sem gekk út á að stuðla að hærri launum verkafólks. Helmersson segir að fyrirtækið muni nota áhrif sín til þess að krefjast hærri launa fyrir verkafólk og fyrirtækið sé auk þess í viðræðum við stjórnvöld um að hækka lágmarkslaun svo fátt eitt sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert