Vörpuðu sprengju á leikvöll leikskóla

Frá leikvellinum þar sem sprengjan sprakk í morgun.
Frá leikvellinum þar sem sprengjan sprakk í morgun. AFP

Tólf ung börn særðust, þar af tvö alvarlega, þegar sprengja sprakk á leikvelli við leikskóla í borginni Benghazi í Líbíu í dag. Vitni segja að sprengjunni hafi verið kastað yfir girðingu leikvallarins á meðan börnin voru þar að leik.

Róstusamt hefur verið í borginni að undanförnu, sem er önnur stærsta borg landsins, en syni yfirmanns sérsveitar lögreglu var rænt í síðustu viku og er þess krafist að fangar verði látnir lausir í skiptum fyrir hann.

Nánast daglega hefur verið ráðist að stjórnarbyggingum og öðrum opinberum mannvirkjum þar og stjórnvöldum gengur illa að koma böndum á ástandið. Síðastliðna nótt réðust byssumenn á liðsmenn sérsveitar lögreglu í miðborg Benghazi og réðust að því búnu á hóp stjórnarandstæðinga sem höfðu komið sér fyrir í miðborginni til mótmæla og kveiktu í tjöldum þeirra og bílum.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á sprengingunni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert