Kærður fyrir að segja „Heil Hitler“

Jacek Protasiewicz, Evrópuþingmaður.
Jacek Protasiewicz, Evrópuþingmaður. AFP

Pólskur Evrópuþingmaður, Jacek Protasiewicz, verður kærður fyrir að hafa kallað tvo tollverði á alþjóðaflugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi nasista síðastliðið þriðjudagskvöld og öskrað „Heil Hitler“ að þeim. Þingmaðurinn, sem einnig er einn varaforseta Evrópuþingsins í umboði þingflokksins EPP, gaf þá skýringu á hegðun sinni að hann hefði aðeins drukkið tvær litlar vínflöskur.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að lögregla hafi staðfest að Protasiewicz yrði kærður. Auk þess að öskra nasistakveðjuna að tollvörðunum sagði hann öðrum þeirra að hann ætti að fara til Auschwitz þar sem þýskir nasistar starfræktu einar af útrýmingarbúðum sínum í síðari heimsstyrjöldinni. Sjónarvottur sagði þingmanninn hafa verið mjög drukkinn og hafi meðal annars tekið farangursvagn af öðrum farþega áður en hann hellti sér yfir tollverðina. Lögregla handtók hann síðan og leiddi á brott í handjárnum. Honum var síðan sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Protasiewicz hefur hafnað ásökununum. Hann sagði í samtali við pólska fjölmiðla að tollverðirnir hefðu verið ógnandi í hans garð. Annar tollvörðurinn hafi beðið um að skoða töskurnar hans en hann hafi svarað að það gengi gegn diplómatísku frelsi hans. Þegar hann hafi skilað vegabréfinu hafi hann sagt „Raus“ eða „Farðu“. „Ég sagði honum að hann ætti að heimsækja Auschwitz vegna þess að þar hefðu Þjóðverjar notað orðið „Raus“.“

Forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, gagnrýndi Protasiewicz fyrir framgöngu hans í gær en Protasiewicz tilheyrir stjórnmálaflokki hans. „Einstaklingur sem gegnir svo mikilvægri opinberri og alþjóðlegri stöðu verður að geta stjórnað tilfinningum sínum og taugum,“ sagði ráðherrann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert