Díana prinsessa lét slúðurblaðamann fá konunglega símaskrá

Díana prinsessa.
Díana prinsessa. AFP

Díana heitin prinsessa lét slúðurblaðið News of the World fá símaskrá með símanúmerum hátt settra hirðmanna og annarra starfsmanna konungsfjölskyldunnar. Símaskrána notuðu blaðamenn blaðsins við fréttaöflun sína.

Þetta kom fram í dag við réttarhöld í svokölluðu símahlerunarmáli gegn blaðamönnum og stjórnendum News of the World. Prinsessan sendi Clive Goodman, blaðamanni blaðsins, símaskrárnar árið 1992, sama ár og hún skildi við Karl Bretaprins. 

„Hún var að fara í gegnum virkilega erfitt tímabil,“ sagði Goodman við réttarhöldin í dag. „Hún vildi að ég sæi umfang starfsliðs eiginmanns hennar. Henni fannst starfsfólk hans gera lítið úr sér og hún var í leit að bandamanni til að sýna honum í tvo heimana. Að til væru öfl sem myndu fara gegn honum,“ sagði Goodman.

Hann er ákærður fyrir að eiga aðild að misferli á meðan hann starfaði á blaðinu, en hann neitar sök. Árið 2007 var hann sakaður um að hafa hlerað símtæki starfsfólks bresku konungsfjölskyldunnar.

Grænu bækurnar

Símaskrárnar sem um ræðir eru kallaðar „Grænu bækurnar“. „Þær voru sendar á skrifstofu mína í Wapping, merktar mér,“ sagði Goodman við réttarhöldin. Spurður um hvernig þær hefðu nýst honum við fréttaöflun nefndi hann dæmi um að þegar Díana lést árið 1997 hefði almenningur krafist þess að fáni yrði dreginn hálfur að húni við Buckingham-höll til að votta samúð. En þar sem Elísabet Englandsdrottning var ekki í höllinni, þá hefði ekki verið heimilt að flagga vegna hirðsiða. Slökkviliðsmanni nokkrum hefði verið svo misboðið að hann flaggaði án leyfis. Goodman fann símanúmer hans í símaskránni og gat slökkviliðsmaðurinn staðfest þessa sögu.

News of the World var gefið út af ástralska blaðakónginum Rupert Murdoch. Útgáfu þess var hætt árið 2011 eftir að upp komst að blaðamenn þess hefðu hlerað síma til að afla frétta.

Clive Goodman.
Clive Goodman. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert