Varnarmálaráðherra Úkraínu rekinn

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Úkraínu, Igor Tenyukh.
Fyrrverandi varnarmálaráðherra Úkraínu, Igor Tenyukh. ANATOLII STEPANOV

Úkraínska þingið samþykkti í morgun að reka Igor Tenyukh, varnarmálaráðherra Úkraínu, úr starfi. Hann hefur legið undir mikilli gagnrýni að undanförnu fyrir að hafa ekki beitt sér nægilega mikið til að verja úkraínska hermenn á Krímskaga.

Margir úkraínskir hermenn í Krím hafa annaðhvort gengið í lið með rússneskum stjórnvöldum eða yfirgefið héraðið á undanförnum misserum. Þingmenn í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, hafa sakað varnarmálaráðherrann um að láta undir höfuð leggjast að bregðast við ástandinu.

Igor kemur úr flokki þjóðernissinna í Úkraínu en annar þjóðernissinni, Sashko Bily, var skotinn til bana í morgun. Vladimir Yevdokimov, aðstoðarmaður innanríkisráðherrans í Úkraínu, sagði við fjölmiðla að Bily hefði látið lífið í skotbardaga við lögreglu á kaffihúsi í borginni Rivne, sem er í vesturhluta Úkraínu. 

Herforinginn Mykhailo Koval er nýr varnarmálaráðherra Úkraínu en Oleksandr Túrtsjínov, forseti Úkraínu, samþykkti ráðningu hans í dag, að því er segir í frétt AFP.

Leiðtogar sjö helstu efnahagsvelda heims ákváðu í gær að Rússar fengju ekki að vera með í G8-ríkjahópnum - sem áður taldi átta helstu efnahagsveldi heimsins. Á fundi ríkjahópsins í hollensku borginni Haag var einnig ákveðið að herða viðskiptaþvinganir ef Rússum tekst ekki að lægja öldurnar í samskiptum sínum við Úkraínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert