Beina „refsiaðgerðum“ að Obama

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Rússar hafa sett af stað herferð á netinu til þess að svara refsiaðgerðum sem Bandaríkjamenn hafa gripið til gagnvart Rússlandi vegna framgöngu Rússa á Krímskaga. 

„Barack Obama og meðlimum bandarísku ríkisstjórnarinnar, öldungadeildar Bandaríkjaþings og fulltrúadeildarinnar er bannað að óska mér til hamingju með afmælið,“ skrifaði instagramnotandinn kos77 og birti með mynd af óánægðum Obama. Annar rússneskur netnotandi, sem starfar sem ljósmyndari, skrifaði á vefsíðuna Oursanctions.ru að hann ætlaði ekki að veita forsetanum og fjölskyldu hans þjónustu sína ef þau óskuðu einhvern tímann eftir því.

Ennfremur eru rússneskir twitternotendur byrjaðir að nota merkinguna #mysanctions þegar þeir lýsa því yfir að hitt og þetta sé ekki í boði fyrir Obama samkvæmt frétt Reuters. Allt frá rauðum kavíar til vodka. Þá birti verslanamiðstöð í Moskvu dagblaðsauglýsingu þar sem fram kom að Obama væri bannaður í henni.

Fram kemur í fréttinni að vinsældir Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, hafi aukist í kjölfar þeirra refsiaðgerða sem Bandaríkin og önnur ríki hafa gripið til gegn Rússlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert