Líkið nær óþekkjanlegt á baðinu

Wikipedia

Mánuðum saman lá lík 52 ára konu á baðherbergi íbúðar hennar í Berlín höfuðborg Þýskalands þar til nágrannar tilkynntu yfirvöldum að póstkassinn hennar væri orðinn yfirfullur af pósti. Málið var kannað í kjölfarið síðastliðið sunnudagskvöld og fannst þá líkið sem hafði rotnað það mikið að það var nær óþekkjanlegt.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að ekki sé vitað nákvæmlega hvenær konan lést en talið er að það hafi líklega gerst í kringum mánaðarmótin ágúst-september á síðasta ári. Konan hafði búið í íbúðinni í áratug en talið er að hún hafi hugsanlega átt við veikindi að stríða þar sem talsvert af lyfjum fannst í íbúðinni.

Þá segir að lögregla telji ekki að um glæpsamlegt athæfi hafi verið að ræða. Málið er í rannsókn lögreglu og verður líkið meðal annars krufið til þess að leita vísbendinga um það með hvaða hætti andlát konunnar bar að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert