Stuðningsmenn Morsi dæmdir í fangelsi

AFP

Dómstóll í Egyptalandi dæmdi í dag 120 stuðningsmenn Mohamed Morsi, fyrrverandi forseta landsins, í þriggja ára fangelsi fyrir hörð mótmæli í kjölfar þess að Morsi var steypt af stóli í fyrra.

Í frétt AFP segir að hundruðir stuðningsmanna Morsi hafi verið dæmdir í fangelsi á seinustu mánuðum fyrir að taka þátt í óeirðunum. Yfir fimmtíu manns létu lífið í átökunum.

Í fréttinni er bent á að í mars síðastliðnum hafi 529 stuðningsmenn Morsi verið dæmdir til dauða fyrir morðtilraunir á lögreglumönnum í borginni Minya, sem er í suðurhluta Egyptalands, þann 14. ágúst í fyrra.

Þá voru þrír fylgismenn fyrrverandi forsetans dæmdir í fimm ára fangelsi fyrir að taka þátt í óeirðum í borginni Assiut, sem er einnig í suðurhluta landsins.

Undir lok þessa mánaðar verður síðan kveðinn upp dómur yfir Mohamed Badie, sem er einn af leiðtogum Bræðralags múslima, og 700 öðrum stuðningsmönnum Morsi. Þeir eru allir sakaðir um að taka þátt af fullum krafti í átökunum gegn lögreglusveitum í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert