Viðurkenni sjálfstæði Transnistríu

Yevgeny Shevchuk, leiðtogi Transnistríu.
Yevgeny Shevchuk, leiðtogi Transnistríu.

Yevgeny Shevchuk, leiðtogi héraðsins Transnistríu í Moldóvu, hvetur ríki Evrópusambandsins til að viðurkenna sjálfstæði héraðsins. Hann segir að slík viðurkenning muni lægja öldurnar á svæðinu en rússnesk stjórnvöld hafa safnað saman miklu liði nálægt héraðinu.

Þing héraðsins hefur jafnframt samþykkt tillögu þess efnis að bæði Rússar og Sameinuðu þjóðirnar viðurkenni sjálfstæði þess. Athygli vekur hins vegar að ekki er farið fram á að héraðið sameinst Rússlandi, að því er segir í frétt AFP.

Í samtali við fjölmiðla lagði Shevchuk hins vegar áherslu á að íbúar héraðsins ættu sjálfir að ákveða hver næstu skref yrðu.

Transnistría er á mjórri landræmu á milli árinnar Djenstr og Úkraínu en héraðið lýsti yfir sjálfstæði árið 1990. Íbúar þar fylgja Rússum að málum og rússneskir hermenn hafa haft aðsetur þar.

Ekkert ríki hefur hins vegar viðurkennt sjálfstæði Transnistríu.

Stjórnvöld í Moldóvu hafa lýst yfir ótta við að örlög Transnistríu kunni að verða svipuð og nágrannaríkisins, Úkraínu.

Í nóvember í fyrra stigu ríkisstjórnirnar í Moldóvu og Georgíu fyrstu skrefin að samkomulagi við Evrópusambandið en stefnt er að undirritun hans á næsta ári. Forseti Moldóvu, Nicolae Timofti, hefur hvatt sambandið til að hafa hraðar hendur. Hann segir að tíminn sé naumur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert