Berlusconi mun starfa á hjúkrunarheimili

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. mbl.is/AFP

„Guð, þá mun ég aldrei koma hingað framar,“ sagði eldri kona á hjúkrunarheimilinu Sacra Famiglia í Mílanóborg þegar hún fékk fréttirnar af því að Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, myndi starfa við hjúkrun á heimilinu en hann var í vikunni dæmdur til þess að starfa við samfélagsþjónustu vegna skattsvika. 

Að sögn lögfræðings Berlusconis mun hann starfa á heimilinu í fjórar klukkustundir á viku í eitt ár. Áður hafði Berlusconi beðið um að fá að starfa í miðstöð fyrir aldrað fólk og fatlaða í nágrenni við heimili sitt, en honum varð ekki að ósk sinni. Lögfræðingur hans segir að verkefni Berlusconis muni aðallega snúast um að veita vistmönnum félagsskap og fylgja þeim til kirkju. Eldri kona á heimilinu sem Reuters ræddi við segir undarlegt hversu stuttur vinnutími Berlusconis sé. „Hálfur dagur? Einu sinni í viku? Hvers konar samfélagsþjónusta er það? Ég á erfitt með að sjá hann fyrir mér í þessu umhverfi.“

Paolo Pigni, forstöðumaður hjúkrunarheimilisins, svaraði í gær spurningum blaðamanna. „Við báðum ekki um að fá hann hingað. Þetta kemur mér jafnmikið á óvart og ykkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert