Miliband ræður til sín ráðgjafa Obama

David Axelrod, fyrrum ráðgjafi Baracks Obama, núverandi ráðgjafi Verkamannaflokksins í …
David Axelrod, fyrrum ráðgjafi Baracks Obama, núverandi ráðgjafi Verkamannaflokksins í Bretlandi Mynd/AFP

David Axelrod, einn mikilvægasti ráðgjafi Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, í síðustu tveimur kosningabaráttum hans, hefur nú verið ráðinn ráðgjafi Eds Milibands og Verkamannaflokksins fyrir þingkosningarnar þar í landi á næsta ári. 

Verkefni Axelrods er að aðstoða Verkamannaflokkinn að tala máli barnafjölskyldna, gegn félagslegu óréttlæti. Hann segir í samtali við The Guardian að starf hans fyrir Verkamannaflokkinn verði sambærilegt því sem hann hafði í kosningabaráttum Obama.

„Ég tók starfinu vegna þess að ég hef átt langar samræður við Ed Miliband á undanförnum árum. Þær hafa ekki bara snúist um pólitík heldur einnig um það hvernig hægt sé að skapa samfélag á okkar tímum þar sem allir hafa jöfn tækifæri og laun hækka hraðar en verðlag,“ sagði Axelrod við The Guardian

Það stefnir því í spennandi kosningabaráttu á næsta ári þegar kosið verður til þings. Helsti andstæðingur Axelrods verður Ástralinn Lynton Crosby sem hefur starfað sem ráðgjafi Íhaldsflokksins í Bretlandi í síðustu kosningabaráttum og getið sér góðs orðs. Áhugaverð er einnig sú staðreynd að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, hefur líka ráðið til sín fyrrum ráðgjafa Baracks Obama, Jim Messina. Mun hann einnig vera flokknum innan handar í komandi kosningabaráttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert