Bankamenn í Hong Kong mótmæla

AFP

Fjölmargir bankamenn í Hong Kong hafa ákveðið á fjölmenna á götur borgarinnar í dag og mótmæla stjórn Kínverja. Þeir krefjast þess að haldnar verði frjálsar kosningar í borginni sem allra fyrst.

Skipuleggjendur mótmælanna hafa hótað því að loka fjölförnum götum í miðborginni en þeir segjast hafa allt að tíu þúsund manns í liði með sér.

Stjórnvöld í bæði Hong Kong og Kína hafa gagnrýnt áformin og þá hafa fjölmargir forstjórar stórfyrirtækja jafnframt hótað því að reka þá sem taka þátt í mótmælunum umsvifalaust úr starfi.

„Pólitíska landslagið í Hong Kong hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni borgarinnar,“ segir í yfirlýsingu bankamannanna. Þeir krefjast þess að tjáningarfrelsi almennra borgara verði virt, einstaklingsfrelsi aukið og að ýmis höft stjórnvalda verði afnumin.

Meðal almennra borgara í Hong Kong ríkir einnig óánægja með hækkun fasteignaverðs, skipulagslítið streymi milljóna ferðamanna frá meginlandinu ár hvert og vaxandi mun á lífskjörum ríkra manna og snauðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert