Setjast að samningsborðinu í Taílandi

Yingluck Shinawatra, forsætisráðherra Taílands.
Yingluck Shinawatra, forsætisráðherra Taílands. EPA

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna í Taílandi munu setjast að samningsborðinu í dag, þriðjudag, og ræða um nýjar kosningar. Engin ríkisstjórn hefur verið starfandi í landinu frá því í desembermánuði, að því er segir í frétt AFP, og voru þingkosningarnar, sem haldnar voru í febrúar síðastliðnum, dæmdar ólöglegar.

Alda mótmæla hefur breiðst um landið á undanförnum mánuðum. Stjórnarandstæðingar hafa krafist þess að forsætisráðherra landsins, Yingluck Shinawatra, segi af sér. Þeir vilja að skipuð verði þjóðstjórn sem starfi tímabundið þar til kosningar fara fram. Shinawatra hefur hins vegar ekki viljað láta af embætti.

25 hafa látið lífið og hundruðir særst alvarlega í átökum mótmælenda og lögreglunnar á seinustu mánuðum.

Boðað er til fundar í dag þar sem farið verður yfir stöðuna en markmiðið er að boða til kosninga, helst sem fyrst.

Eins og áður sagði dæmdi stjórnlagadómstóll landsins þingkosningarnar í febrúar ólöglegar. Stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, Lýðræðisflokkurinn, hvatti fólk til þess að sniðganga kosningarnar, en hann krafðist þess að skipuð yrði þjóðstjórn í landinu til þess að koma í gegn grundvallarbreytingum á kosningakerfi landsins áður en gengið yrði til kosninga.

Í yfirlýsingu frá flokknum segir að ákveðnir hagsmunahópar og stjórnmálaflokkar „vilji ekki lýðræði“. Þeir reyni því að skapa hálfgert „pólitískt tómarúm“ þannig að þeir geti skipað sinn eigin leiðtoga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert