Föst í flugvélinni í 34 tíma

Cathay Pacific þota í aðflugi.
Cathay Pacific þota í aðflugi. mbl.is/afp

Öðru hverju snúast ferðalög til verri vegar en saga ferðalanga sem keyptu sér far með Cathay Pacific flugfélaginu frá New York til Hong Kong telst líklega með verri ferðahrellingum. 

Að sögn bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC beið farþeganna 256 hvorki meira né minna en 34 klukkustunda vist í Boeing-777 þotunni. Þar af máttu þeir dúsa í flugvélinni í 15 klukkustundir á flugvellinum í Zhuhai í Kína vegna óvæntrar öryggislendingar.

„Þetta var ótrúlegt ferðalag. Við fengum ekki að fara út úr þotunni. Áhöfnin fékk það ekki heldur. Við urðum bara að dúsa inni í flugvélinni,“ hefur NBC eftir einum farþeganna.

En hvað gerðist og hvernig má það vera að farþegar þyrftu að dúsa í hálfan annan sólarhring í flugvél?  Röð samverkandi atvika er líklega besta svarið; í þessu tilfelli slæmt veður, takmörk á vaktarlengd flugáhafnar og opinber stefna stjórnvalda, í þessu tilviki kínverskra.

„Þetta voru afar óvenjulegar kringumstæður, nokkuð sem við viljum fyrir alla muni komast hjá, ef hægt er. Samúð okkar er með farþegunum,“ sagði Julie Jarratt, talskona flugfélagsins.

Er flug Cathay Pacific CX831 fór í loftið á John F. Kennedyflugvellinum síðdegis þann 29. mars í New York benti allt til þess að um yrði að ræða 16 stunda tilbreytingarlaust og venjulegt  ferðalag til Hong Kong. Og sú varð raunin, allt þar til aðflug til Hong Kong hófst, í illviðri; stormi, eldingaveðri og éljum.

„Ókyrrðin var mikil og hætta varð við lendingu vegna ólgu stormsins,“ sagði farþegi.  Aðstæður voru það slæmar að flugi CX831 hvarf frá og var snúið til Zhuhai, kínverskrar borgar eigi allfjarri Hong Kong.

Eftir lendingu þar var áhöfn og farþegum meinað að yfirgefa þotuna. Yfirmenn lögreglunnar og tollsins á flugvellinum tóku þá ákvörðun og varð ekki hvikað. Þar rann vaktartími áhafnarinnar út og þeir mannskapurinn varð að taka sér lögboðna hvíld. Sakir þess urðu farþegarnir að bíða komu nýrrar áhafnar frá Hong Kong áður en hægt yrði að halda ferðinni áfram.

Þessi bið tók 15 klukkustundir og það var ekki fyrr en klukkan 13:08 þann 31. mars að þotan fór í loftið á ný og tók stefnuna á Hong Kong. Þar lenti hún eftir rétt rúmlega klukkustundar flug; 34 stundum eftir flugtak í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert