Spænskur stjórnmálamaður skotinn til bana

Lögreglu- og björgunarmenn standa við lík stjórnmálamannsins Isabel Carroso, sem …
Lögreglu- og björgunarmenn standa við lík stjórnmálamannsins Isabel Carroso, sem var skotin til bana í borginni Leon á Spáni í dag. AFP

Isabel Carrasco, leiðtogi íhaldsflokksins Partido Popular (PP) í borginni Leon, var skotin til bana úti á götu nú fyrir stundu. Hún var skotin margsinnis af ungri konu, þar sem hún var á gangi á leið til flokksfundar.

BBC hefur eftir spænskum fjölmiðlum að kona hafi verið handtekin grunuð um morðið. Fjöldi fólks varð vitni að morðinu og var hvítt lak breitt yfir líkið svo það væri ekki fyrir allra augum, á meðan vettvangur glæpsins var rannsakaður.

Innanríkisráðuneyti Spánar segir að morðið virðist ekki vera af pólitískum meiði. „Allt bendir til þess að þetta hafi verið persónuleg hefndaraðgerð ótengd opinberri stöðu hennar,“ hefur Afp eftir talskonu ráðuneytisins.

Carrasco var fædd árið 1955 og var menntaður lögfræðingur. Hún hefur leitt sveitarstjórn Leon frá árinu 2007.

PP leiðir ríkisstjórn landsins undir stjórn Mariano Rajoy forsætisráðherra. Hann hefur aflýst allri dagskrá sinni í dag vegna morðsins og á það sama við um stjórnarandstöðuflokk sósíalista.

Uppfært kl. 18:38: Að sögn talsmanss lögreglu í Leon eru tvær konur, mæðgur í varðhaldi vegna morðsins og er hugsanleg aðild þeirra beggja til rannsóknar..

Isabel Carrasco árið 2007 á skrifstofu sinni í Leon.
Isabel Carrasco árið 2007 á skrifstofu sinni í Leon. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert