Bandaríkin ákæra fyrir njósnir

Talið er að stuldur á viðskiptaleyndamálum kosti bandarískt hagkerfi um …
Talið er að stuldur á viðskiptaleyndamálum kosti bandarískt hagkerfi um 300 milljarða dollara á hverju ári. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa ákært fimm kínverska hermenn fyrir að brjótast inn í tölvukerfi bandarískra fyrirtækja og stela viðskiptaleyndamálum. Þetta er í fyrsta skipti sem slík ákæra er lögð fram.

Er þetta til marks um að deilan á milli Bandaríkjanna og Kína um njósnir sé að stigmagnast en kínversk yfirvöld hafa einnig haldið því fram að Bandaríkjamenn stundi njósnir um kínversk fyrirtæki. Ákæran er skilgreind sem mál er varðar þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Í skýrslu sem bandaríska öryggisfyrirtækið Mandiat gaf út í fyrra kom fram að kínverski herinn hefði fjárfest í öflugum njósnabúnaði og að þúsundir manna vinna nú við hakka sig inn í tölvukerfi bandarískra fyrirtækja og stela viðskiptaleyndamálum. Unnið er frá tólf hæða byggingu í útjaðri borgarinnar Shanghai og hefur gögnum verið stolið frá að minnsta kosti 141 fyrirtæki í um 20 mismunandi greinum.

Í annarri skýrslu sem bandarísk yfirvöld unnu var talið að stuldur á viðskiptaleyndamálum kostaði bandaríska hagkerfið um 300 milljarða dollara á hverju ári - en það jafngildir allri sölu frá Bandaríkjunum til Asíu á einu ári. Þeir sögðu Kína vera helsta sökudólginn í málinu en að Rússar hefðu einnig stundað slíka starfsemi.

Í skýrslunni var bandaríska þingið einnig hvatt til þess að setja innflutningsbann á tilteknar kínverskar vörur sem taldar eru byggðar á bandarískum höfundarréttarvörðum hugmyndum sem talið er að hafi verið stolið.

Stjórnvöld í Kína hafa svarað fyrir sig og segja Bandaríkjamenn vera hræsnara sem sjálfir leggi stund á víðtækar njósnir um allan heim.

Í gögnum sem uppljóstrarinn Edward Snowden lak kom fram að bandarísk yfirvöld hefðu meðal annars hakkað sig inn í tölvukerfi kínverska tæknirisans Huawai og ítrekað hindrað fyrirtækið í innrás sinni á bandarískan markað með lagasetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert