Má kalla nýnasista vitfirringa

Joachim Gauck, forseti Þýskalands.
Joachim Gauck, forseti Þýskalands. AFP

Æðsti dómstóll Þýskalands hefur komist að þeirri niðurstöðu að forseta landsins, Joachim Gauck, hafi verið heimilt að kalla liðsmenn nýnasista „vitfirringa“.

Stjórnarskrárdómstól Þýskalands vísaði á bug erindi sem barst frá Þýska þjóðernisflokknum (NDP), sem er hægri öfgaflokkur, þar sem kvartað var yfir ummælum sem forsetinn lét falla í ágúst í fyrra.

Félagar í NDP héldu því fram að Gauck eigi að vera hlutlaus og að forsetinn eigi ekki tjá sig opinberlega um starfsemi stjórnmálaflokka. Þýski forsetinn hefur ekki mikil völd og hefur hann fyrst og fremst viðhafnarhlutverki að gegna.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að forsetinn hafi töluvert svigrúm varðandi það hvernig hann hagar sínum störfum og um hvaða málefni hann vilji ræða á opinberum vettvangi. 

Gauck lét ummælin falla er hann ræddi við nemendur eftir að NPD hafði komið að skipulagningu mótmæla sem beindust gegn flóttamannamiðstöð sem var opnuð í austurhluta Berlínar.

Gauck, sem barðist fyrir lýðræði þegar Austur-Berlín var undir stjórn kommúnista, sagði: „Við þurfum á fólki að halda sem getur mótmælt á götum úti og koma þessum vitfirringum fyrir á vísum stað.“

Dómstóllinn viðurkennir að orðið „vitfirringar“ getur talist vera meiðandi ummæli. Hins vegar verði að skoða ummæli forsetans í heild. Hann hafi einnig talað um hugmyndafræði og öfgamenn og því megi líta á ummælin sem svo að forsetinn hafi verið að tala um fólk sem hafi ekki lært af sögunni, hunsi afleiðingar nasismans og hafi skoðanir sem eru andlýðræðislegar.

Um 6.000 eru félagar í NDP. Flokkurinn fékk um 1,3% atkvæða í kosningunum sem fóru fram í september en flokkurinn hefur ekki náð manni á þing.

Flokkurinn á hins vegar fulltrúa í tveimur ríkjum í austurhluta landsins og þar af leiðandi á flokkurinn rétt á því að fá greiðslur frá ríkinu samkvæmt lögum um greiðslur til stjórnmálasamtaka.

Í síðasta mánuði fékk NDP einn mann kjörinn á Evrópuþingið eftir að hafa náð 1% stuðningi á landsvísu. 

Efri deild þýska þingsins vinnur nú að dómsmáli sem verður flutt fyrir stjórnarskrárdómstól landsins þar sem farið verður fram á að NPD verði bannaður. Flokkurinn var stofnaður árið 1964.

Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefur sagt að flokkurinn sé andlýðræðislegur, hati útlendinga, hati gyðinga og starfi í andstöðu við stjórnarskrá landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert