Vilja refsa Færeyingum áfram

mbl.is/Sigurgeir

Samtök sjómanna innan Evrópusambandsins hafa hvatt ríki sambandsins til þess að leggjast gegn því að refsiaðgerðum gegn Færeyjum verði aflétt. Gripið var til aðgerðanna síðasta sumar vegna ákvörðunar færeyskra stjórnvalda um að gefa út einhliða kvóta í norsk-íslenska síldarstofninn. Þetta kemur fram á fréttavefnum Undercurrentnews.com í dag.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst aflétta refsiaðgerðunum á grundvelli samkomulags við Færeyinga. Á móti hafa færeysk stjórnvöld samþykkt að draga verulega úr síldveiðum sínum og hætta við kæru á hendur sambandinu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og á grundvelli hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna vegna refsiaðgerðanna. Færeyingar gáfu út einhliða kvóta upp á 105 þúsund tonn í fyrra en hafa nú gefið út 40 þúsund tonna kvóta.

Sjómannasamtökin hafa hvatt Evrópusambandið til þess að samþykkja ekki einhliða kvóta Færeyinga langt umfram vísindalega ráðgjöf. Þau benda á að þó Færeyingar hafi minnkað einhliða kvóta sinn þá sé hann eftir sem áður tvöfaldur á við það sem þeir hafi haft síðast þegar þeir hafi átt aðild að samningum um veiðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert