„Ég sá björninn bíta hann í höfuðið“

Horatio Chapple var sautján ára er hann lést.
Horatio Chapple var sautján ára er hann lést.

„Ég heyrði urr bjarnarins, öskur og læti,“ segir stúlka sem var á ferðalagi með Horatio Chapple er ísbjörn réðst á hann í skólaferðalagi á Svalbarða árið 2011. Pilturinn lést í árásinni en nú er verið að rannsaka tildrög slyssins. Meðal þeirra sem gefa rannsóknarnefndinni skýrslu eru skólafélagar Chapples. Fólkið, sem var á unglingsaldri er atvikið átti sér stað, var á skólaferðalagi.

Scott Bennell-Smith var í sama tjaldi og  Horatio er tjaldið fór að hristast. „Tjaldið féll saman yfir okkur þrjá sem þarna vorum og ég fann fyrir nærveru bjarnarins þarna yfir okkur. Ég fann fyrir stærð hans og ég sá hramma hans,“ sagði Bennell-Smith við nefndina í dag. Hann var sextán ára er slysið varð.

„Mig minnir að við höfum allir verið að öskra það sama, öskra á hjálp,“ hefur Sky-sjónvarpsstöðin eftir honum. „Ég lagðist niður og reyndi að liggja kyrr. Ég sá björninn ráðast á einhvern. Það var í miðju tjaldbúðanna. Ég sá björninn bíta hann í höfuðið.“

Björninn réðst einnig á Bennell-Smith en var fljótlega felldur. 

Chapple hlaut lífshættulega áverka á höfði og búk og lést af sárum sínum. Björninn særði fjóra til viðbótar áður en hann var skotinn.

Lauren Beech segir að Chapple hafi fundið spor eftir ísbjörn tveimur dögum fyrir árásina. 

Frá Svalbarða.
Frá Svalbarða. Ljósmynd/Rafn S. Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert