Líkið fannst sex árum síðar

AFP

Það var fyrir algjöra tilviljun að lík sjötugrar konu fannst í blokkaríbúð í Rúðuborg á sunnudag. Konan lést fyrir sex árum.

Vegna vatnsleka var slökkvilið borgarinnar kallað út og þegar slökkviliðsmennirnir komu inn í íbúð konunnar fundu þeir beinagrind hennar. Í sex ár hafa reikningar konunnar verið greiddir í gegnum greiðsluþjónustu, ellilífeyrir hennar var greiddur út rafrænt og hvorki ættingjar né nágrannar höfðu áttað sig á hvarfi hennar fyrir sex árum. Þykir þetta vera til marks um hversu margir franskir ellilífeyrisþegar búa í algerri einangrun.

Ekki hefur tekist að hafa upp á ættingjum konunnar og ef þeir finnast hvers vegna enginn hafði reynt að hafa samband við hana frá árinu 2008.

Í samtali við Le Parisien segir nágranni konunnar að þetta komi ekki á óvart. Í fjölbýlishúsinu sem konan bjó haldi allir sig út af fyrir sig og lítil sem engin samskipti séu á milli íbúa.

Einungis nokkrir dagar eru síðan samtökin Fondation de France birtu skýrslu sem varpar nýju ljósi á hversu margir Frakkar búa í einangrun á efri árum. Af þeim fimm milljónum Frakka sem búa einir eru 27% 75 ára og eldri. Þetta er 10% aukning síðan árið 2010.

Þar er bent á að hættan sé mest í stórborgum þar sem viðkomandi einstæðingur hittir enga aðra en þá sem bera út póstinn – eða réttara sagt: bera út reikninga því fátt annað berist með póstinum, segir í frétt The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert