Urðu fyrir eldingu í fjallgöngu

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Fjögurra manna fjölskyldu var bjargað úr 1.100 metra hæð í fjallgöngu í Noregi síðdegis eftir að þau urðu fyrir eldingu. Sonur hjónanna lenti í hjartastoppi þegar þau urðu fyrir eldingunni.

Samkvæmt frétt VG var fjölskyldan, hjón ásamt 24 ára gömlum syni þeirra og konu á svipuðu reki, í dagsferð í fjalllendinu Trollheimen og áttu sér einskins ills von á ferðalagi sínu á fjallinu Trollhetta þegar eldingunni laust niður. Svo virðist sem þrumuveðrið hafi skollið skyndilega á því fyrr um daginn var viðmælandi VG, Steffen Fossum, á ferð á sömu slóðum ásamt vinum sínum.

Í samtali við VG segir hann að í byrjun ferðarinnar hafi verið ágætt verður en svo hafi allt í einu komið úrhellisrigning og í kjölfarið þrumur og eldingar. Hann segir að eldingarnar hafi verið fjölmargar og stungið sér niður allt í kringum hann og félaga hans. 

Trollhetta er 1614 metrar á hæð og það tekur 8-10 klukkustundir að ganga leiðina milli Jøldalshytta og Trollhetta, segir í frétt VG en þyrla var send eftir fólkinu og flutti þau á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert