Fleiri en þúsund heimsminjar á skrá

Okavango-delta í Botswana er nýjasta viðbótin á heimsminjaskrá UNESCO
Okavango-delta í Botswana er nýjasta viðbótin á heimsminjaskrá UNESCO Mynd/Wikipedia

Heimsminjar á skrá UNESCO eru nú orðnar fleiri en þúsund talsins. Var það Okavango-svæðið í Norð-vesturhluta Botswana sem varð þúsundasta skráningin á listann. Tvær minjar á Íslandi eru á listanum, Þingvellir og Surtsey.

Okavango-svæðið er gróið svæði í kringum Okavango-ána þar sem hún rennur út í Kalaharí-eyðimörkina. Talið er að um 200 þúsund dýr heimsæki svæðið árlega og gegnir svæðið því mikilvægu hlutverki í lífríki Afríku. Á meðal dýranna sem heimsækja svæðið eru mörg í útrýmingarhættu. 

Á síðasta fundi heimsminjanefndarinnar voru 26 nýjar minjar samþykktar á listann og eru þær því nú 1007 talsins, dreifð um 106 lönd. Þingvellir voru samþykktir árið 2004 og Surtsey árið 2008. Markmið listans er að halda skrá yfir þau svæði í heiminum sem hafa að geyma gríðarleg menningarleg verðmæti fyrir heiminn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert