200 ára vændishúsi lokað

Húsgögn borin út úr Kandapara-vændishúsinu.
Húsgögn borin út úr Kandapara-vændishúsinu. AFP

Búið er að loka elsta vændishúsinu í Bangladess. Starfsemi hefur verið í vændishúsinu í um 200 ár. Um 750 vændiskonur störfuðu þar en hefur nú verið vísað á dyr.

Vændishúsið er í raun þyrping húsa í borginni Tangail. Því hefur verið lokað vegna þrýstings frá stjórnmálamönnum og klerkum. Það voru eigendur húsanna sem létu loka, í kjölfar mótmæla í síðustu viku.

Í gær fyrirskipuðu þeir svo öllum vændiskonunum að yfirgefa húsin. Lögreglan segir að þær hafi farið án þess að mótmæla.

Á undanförnum árum hefur mörgum vændishúsum landsins verið lokað. Vændi er ólöglegt í Bangladess en yfirvöld hafa þó ekki gert athugasemdir við starfsemi nokkurra vændishúsa í landinu.

Talskona vændiskvennanna gagnrýnir borgaryfirvöld og segir að þau hafi hótað konunum ofbeldi.

„Bæjarstjórinn sendi fullt af ungum mönnum í vændishúsið á laugardag. Þeir voru vopnaðir prikum og sögðu okkur að við hefðum klukkutíma til að yfirgefa svæðið, annars myndu þeir brenna húsin ofan af okkur,“ segir talskonan.

Hún segir að vændiskonurnar hafi verið í miklu uppnámi. Eigum þeirra hafi verið komið fyrir á vörubílum og þaðan hafi þeim sumum hverjum verið stolið.

Kandapara-vændishúsið var opnað á nýlendutímanum þegar Bretar réðu ríkjum í Bangladess. Síðan eru liðin meira en 200 ár.

Byrjað er að rífa vændishúsið.
Byrjað er að rífa vændishúsið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert