Skutu aðskilnaðarsinnar niður ranga vél?

Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum greindu frá því um klukkutíma áður en fregnir bárust af hrapi malasísku farþegaþotunnar að þeir hefðu skotið niður Antonov An-26 herflugvél. Það sem er sérstakt við yfirlýsinguna er að þeir sögðust hafa skotið hana niður á svipuðum stað og Boeing 777-200 farþegaþotan hrapaði.

Frá þessu er greint á vefsvæði breska dagblaðsins Telegraph og haft eftir fréttaritara blaðsins í Moskvu. Aðskilnaðarsinnar sögðu í yfirlýsingu sinni að þeir hefðu varað „þá“ við að fljúga á þessum slóðum. Sögðu þeir einnig að flugvélin hefði hrapað í dreifbýli í Torez og engan almennan borgara hefði sakað.

Torez er um fjörutíu kílómetra austan við Donetsk og passar við svæðið þar sem farþegaþota Malaysia Airlines hrapaði á sama tíma. „Engin staðfesting hefur fengist á því að uppreisnarmenn hafi fyrir mistök skotið niður 777-vélina í stað AN-26 eða hvort tvær flugvélar hafi verið skotnar niður á sama tíma,“ segir fréttaritari Telegraph.

Yfirlýsingin birtist á vefsvæði Rússans Igor Strelkov sem er fyrrverandi hermaður auk þess að hafa starfað fyrir leyniþjónustu hersins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert