Ótti og ofbeldi á barnaheimili

Börnin, sem oftast komu frá fátækum fjölskyldum, voru send á …
Börnin, sem oftast komu frá fátækum fjölskyldum, voru send á heimilið til þess að fá menntun HECTOR GUERRERO

Kæfandi daunn af rotnandi mat og saur fylltu vitin þegar komið var inn á barnaheimilið í Mexíkó þar sem yfirvöld segja að hundruð barna hafi búið við barsmíðar og kynferðislegt ofbeldi.

Á meðan rannsakendur hlustuðu á frásagnir þeirra sem bjuggu á barnaheimilinu í bænum Zamora í Michoacan-ríki í vest­ur­hluta lands­ins, fengu blaðamenn að skoða bygginguna þar sem hryllingurinn átti sér stað.

Talið er að 607 manns, þar á meðal rúmlega 400 börn, hafi búið í þriggja hæða húsinu, sem að utan lítur út sem hvert annað, málað í grænum, bláum, rauðum og gulum lit með leikvelli fyrir framan.

Áður virt heimili

Blaðamenn fengu að skoða heimilið í dag á meðan vinnumenn hreinsuðu upp rotnandi mat og rusl af gólfinu. En verri en lyktin voru þó sögurnar sagðar af börnunum sem þar bjuggu.

Heimilið heitir „The Big Family“ eða „Stóra fjölskyldan“. Það var stofnað árið 1947 og voru börn send þangað til þess að fá menntun og taka þátt í ýmsum námskeiðum. Áður var það virt og stofnandi þess og stjórnandi, Rosa del Carmen Verduzco, var reglulega lofuð fyrir starf sitt og hlaut háa styrki frá stjórnmálamönnum fyrir starfsemina.

Hún hefur nú verið handtekin ásamt átta öðrum starfsmönnum. Hún er nú undir eftirliti á spítala en hún var lögð inn sökum álags eftir að lögregla gerði áhlaup á heimilið.

Talsmaður rannsóknarlögreglunnar sagði þó í viðtali á sjónvarpsstöðinni Televisa að hin áttræða Verduzco yrði líklega látin laus á laugardag. „Áður fyrr var gott starf unnið á barnaheimilinu. En einhversstaðar tapaði hún áttum,“sagði Tomas Zeron í viðtalinu.

Saksóknarar eru enn að taka skýrslur af öðrum sem handteknir voru í áhlaupinu, þar á meðal einum starfsmanni sem hefur viðurkennt að hafa beitt börnin kynferðislegu ofbeldi.

Þekktu ekki heiminn fyrir utan

Að sögn yfirvalda fann lögreglan við áhlaupið hundruð barna sem höfðu verið neydd til þess að sofa við rottugang og skordýraplágu og borða ónýtan mat. Þá hafa foreldrar marga barnanna sakað heimilið um að hafa krafist fjárgreiðslu er nemur þúsundum bandaríkjadala ef þau vildu þau fá börnin sín aftur.

Að sögn lögreglu sögðust sum börnin hafa þurft að veita starfsmönnunum munnmök. Ein stúlkan sagði að starfsmaður hefði misnotað hana og þegar hún varð ófrísk hefði hún verið barin til þess að framkalla fóstureyðingu. 

Nokkur börn töluðu einnig um að hafa verið barin eða látin vera matarlaus vikum saman ef þau reyndu að fela peninga sem foreldrar þeirra sendu eða ef þau reyndu að flýja.

„Ef þú reyndir að flýja færðu starfsmennirnir þig fyrir framan „stjórann“ (Verduzco) og börðu þig fyrir framan hana,“ sagði hin nítján ára gamla Cecilia Vazquez, blaðamanni er hún hélt á barni sínu sem hún fæddi á barnaheimilinu. „Þegar ég var ólétt sendu þau mig til þess að þrífa klósettin og börðu mig. Ein vinkona mín var misnotuð af starfsmönnunum. Það viðgekkst mikið óréttlæti hérna inni,“ sagði hún í samtali við AFP fréttastofuna.

Þá þekktu sum barnanna ekki umheiminn. „Ég veit ekkert um hvernig heimurinn er hér fyrir utan. Mig langar að fara út og læra meira um lífið,“ sagði Teresita, stúlka á táningsaldri, en heyrnalaus móðir hennar fæddi hana inni á heimilinu þegar hún var sextán ára gömul.

Frétt mbl.is: 450 börn beitt ofbeldi á barnaheimili

Herbergi á barnaheimilinu
Herbergi á barnaheimilinu AFP
Fyrir utan heimilið
Fyrir utan heimilið AFP
Rosa del Carmen Verduzco, stjórnandi heimilisins.
Rosa del Carmen Verduzco, stjórnandi heimilisins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert