Fleiri börn en uppreisnarmenn látist

Dagurinn í dag var einn sá blóðugasti frá því að átökin hófust á Gaza en fjörtíu og sex Palestínumenn og þrír Ísraelar liggja í valnum eftir daginn.

Ísraelskar herþotur vörpuðu sprengjum á Gaza og hermenn létu til skara skríða á jörðu niðri. Efir daginn er dánartalan komin í 342 á tólfta degi átaka en fjölmargir hinna látnu er börn.

Þrátt fyrir mikla andstöðu af hálfu Ísraela komust palestínskar sveitir yfir í suðurhluta Ísraels í dag og hæfðu tvo ísraelska hermenn sem létu lífið. Fjórir Palestínumenn létu lífið í árásinni.

Þá lést annar Ísraeli þegar eldflaug hæfði heimili hans í suðurhluta landsins. Fjórir aðrir úr fjölskyldu hans særðust, þar á meðal tvö börn. Eftir daginn hafa nú alls fimm Ísraelar látið lífið í árásunum. Þrír hermenn og tveir almennir borgarar.

Að sögn yfirmanns í ísraelska hernum verður nú meiri áhersla lögð á hernað á jörðu. Hann varaði við því að aukin harka gæti færst í átökin.

Sex og fjögurra ára börn látin

Á meðal hinna látnu á Gaza eru tvö sex ára gömul börn og eitt fjögurra ára. Að sögn Barnastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa nú fleiri börn en uppreisnarmenn látist í árásunum. Samkvæmt tölum frá stofnuninni eru sjötíu og þrír af hinum látnu börn undir átján ára aldri.

„Börn eiga að njóta verndar fyrir ofbeldi og þau ættu ekki að verða að fórnarlömbum átaka sem þau hafa ekkert með að gera“ sagði talskona UNICEF, Catherine Weibel. Skrifstofa SÞ fyrir flóttamenn í Palestínu hefur opnað 44 skóla þar sem flóttamenn frá þeim svæðum sem verst hafa orðið úti geta leitað skjóls. Yfir fimmtíu þúsund manns hafa nú flúið þangað.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-Moon, fór til Mið-Austurlanda í dag til þess að setja aukinn þrýsting á deiluaðila um að binda endir á blóðbaðið.

Þá er utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, einnig á svæðinu en hann sagði vopnahlé eiga að vera í algjörum forgangi og hvatti deiluaðila til þess að komast að samkomulagi.

Forseti Palestínu, Mahmud Abbas og leiðtogi Hamas-samtakanna, Khaled Meshaal, munu funda í Katar á morgun og ræða um vopnahlé á Gaza.

Á meðal hinna látnu í dag eru sex og fjögurra …
Á meðal hinna látnu í dag eru sex og fjögurra ára gömul börn AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert