Bannað að koma fram í Lettlandi

Rússneski söngvarinn Iosif Kobzon var einn þeirra sem tilnefndu Pútín …
Rússneski söngvarinn Iosif Kobzon var einn þeirra sem tilnefndu Pútín til friðarverðlauna Nóbels í fyrra. ALEXANDER NEMENOV

Þremur rússneskum skemmtikröftum hefur nú verið bannað að koma fram í Lettlandi þar sem þeir eru opinberir stuðningsmenn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og studdu innlimun Krímskaga í Rússland. Þetta staðfesti utanríkisráðherra Lettlands í dag.  

„Það er engin leið til þess að lýsa þessu fólki án þess að kalla það áróðursmenn. Því verður neitað um leyfi til þess að koma inn í landið,“ sagði utanríkisráðherran, Edgars Rinkvics, í lettnesku útvarpi í dag. 

Ráðuneytið hefur jafnframt staðfest nöfn skemmtikraftanna en þau eru Oleg Gazmanov, Iosif Kobzon og Alla Perfilova, betur þekkt sem Valeriya. 

„Auðvitað má fólk segja það sem það vill en ég vil að það sé alveg ljóst að fólk sem breiðir út þessi viðhorf er ekki velkomið í land sem er hluti af Evrópusambandinu,“ sagði Rinkvics ennfremur. 

Anhelita Kamenska, sem starfar fyrir mannréttindasamtök í Lettlandi, setti þó spurningarmerki við ástæður þess að þessir þrír skemmtikraftar höfðu verið bannaðir á meðan aðrir voru það ekki. Nefndi hún sem dæmi hljómsveitarstjórnandann Valery Gergiev sem er þekktur stuðningsmaður Pútíns, en hann kom fram ásamt lettnesku óperunni 17. júlí síðastliðinn. 

„Ef þú skoðar rússneska menningu og þá sem eru háttsettir innan hennar eru mjög margir sem hafa lýst yfir stuðningi sínum við Pútín,“ sagði Kamenska í samtali við AFP. 

Skemmtikraftarnir þrír sem hafa nú verið bannaðir höfðu áætlað að koma fram í árlegu söngvakeppninni New Wave sem hefur verið líkt við Eurovision. Keppnin dregur á hverju ári að sér keppendur úr löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum. 

Rússneskir auðmenn hafa verið áberandi í áhorfandaskara keppninnar síðustu ár og koma til Lettlands á snekkjum og einkaþotum. Vekja þeir mikla athygli og umtal í Lettlandi á ári hverju. Þrátt fyrir vinsældir keppninnar hafa margir Lettar kvartað yfir því að hún minni þá á gömlu tímana þegar Lettland var hluti af Sovétríkjunum. 

Um tvær milljónir manna búa í Lettlandi sem varð hluti af Evrópusambandinu og NATO árið 2014. Um fjórðungur íbúa landsins er Rússar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert