Öryggisráðið fer fram á vopnahlé

Reykur rýs frá Gaza-borg eftir loftárás Ísraelsmanna.
Reykur rýs frá Gaza-borg eftir loftárás Ísraelsmanna. AFP

Að loknum lokuðum neyðarfundi um ástandið á Gaza hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kallað eftir tafarlausu vopnahléi milli Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna. Fundurinn var boðaður eftir að Ban Ki-moon fordæmdi loftárásir Ísraelsmanna á úthverfi Gaza-borgar sem grimmilegar aðgerðir.

Það var Jórdanía sem fór fram á neyðarfundinn hjá öryggisráðinu, að því er fram kemur á vef BBC. Fulltrúi Jórdaníu í ráðinu er sagður hafa lagt fram drög að harðorðri ályktun sem taka skyldi til skoðunar. Aðildarríki öryggisráðsins sáu sér þó ekki fært að skrifa undir hana, en komu sér saman um að grípa til vægari ályktunar, þar sem krafist er vopnahlés án tafar.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur til Kaíró í Egyptalandi í dag til að ræða ástandið við egypsk stjórnvöld. Arababandalagið sakar Ísraelsmenn um að fremja stríðsglæpi með árásum sínum á Shejaiya-hverfið austur af Gaza-borg.

Tugþúsundir hafa misst heimili sín

Gærdagurinn var sá blóðugasti á Gaza í fimm ár, en þá féllu 13 ísraleskir hermenn og yfir 100 Palestínumenn voru drepnir. Yfir 500 Palestínumenn hafa nú látið lífið frá því að hernaður Ísraelsmanna hófst fyrir rétt tæpum tveimur vikum. Heilbrigðisstarfsmenn á Gaza segja að allt að þriðjungur þeirra hafi verið konur og börn. Átján ísraelskir hermenn hafa fallið frá því landhernaður hersins hófst á fimmtudag.

Sameinuðu þjóðirnar segja að 83.695 Palestínumenn séu nú flóttamenn á Gaza-svæðinu og talan hækki stöðugt. Þrátt fyrir að Rauði krossinn hafi farið fram á vopnahlé um miðjan dag í gær, til að hægt væri að flytja særða og lík á brott, hélt sprengjuregn og skothríð áfram svo sjúkrabílar komust ekki á svæðið. Hamas-liðar og Ísraelsmenn kenndu hvorir öðrum um að hafa rofið vopnahléið.

Hamas-liðar sögðust í gærkvöldi hafa tekið ísraelskan hermann höndum. Tíðindunum var fagnað á götum úti á Gaza og Vesturbakkanum, en Ron Prosor, sendiherra Ísraels við SÞ, segir þetta orðróm sem enginn fótur sé fyrir.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanyahu, hét því í gær að halda hernaðinum áfram „eins og þörf krefur“ þrátt fyrir að 18 hermenn hafi fallið um helgina. Tveir þeirra voru bandarískir ríkisborgarar.

Fram kemur á vef BBC að fleiri ísraelskir hermenn hafa nú þegar fallið en á þeim þremur vikum þegar síðast var ráðist í landhernað á Gaza, um áramótin 2008-2009. Fréttaritari BBC í Ísrael, Chris Morris, segir að Ísraelsmönnum muni vera mjög brugðið yfir mannfallinu í þeirra röðum enda eigi þeir því ekki að venjast í slíkum mæli.

Palesstínumenn hittust til bænahalds við Al-Aqsa Mosque í Jerúsalem aðfaranótt …
Palesstínumenn hittust til bænahalds við Al-Aqsa Mosque í Jerúsalem aðfaranótt 21. júlí. AFP
Ísraelskur skriðdreki á leið að landamærunum við Gaza um helgina.
Ísraelskur skriðdreki á leið að landamærunum við Gaza um helgina. AFP
Palesínskar fjölskyldur flýja heimili sín í úthverfinu Shejaiya í Gaza-borg, …
Palesínskar fjölskyldur flýja heimili sín í úthverfinu Shejaiya í Gaza-borg, vegna loftárása Ísraelshers. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert