Skólabygging sprengd á Gaza

Íbúi Gaza-strandarinnar sefur hér á skrifborði úr skólastofu.
Íbúi Gaza-strandarinnar sefur hér á skrifborði úr skólastofu. AFP

Að minnsta kosti 15 manns hafa látist og 150 slasast í sprengjuárás á skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna í norðurhluta Gaza. Skólabyggingin hefur undanfarið verið notuð til að skýla almennum borgurum frá blóðbaðinu á götum úti. al-Jazeera greinir frá þessu.

Heilbrigðisyfirvöld á Gaza-svæðinu segja að Ísraelsmenn eigi sök á sprengingunum. Talsmaður ísraelska hersins neitar því og telur líklegra að skot úr sprengjuvörpu Hamas-samtakanna hafi hæft bygginguna fyrir mistök.

Stefanie Dekker, fréttamaður al-Jazeera á svæðinu, segist ekki enn hafa náð í forráðamenn skólans vegna sprenginganna. Þá segir jafnframt að enginn af þeim viðmælendum sem Dekker talaði við telji að sprengingin sé af völdum Palestínumanna.

Chris Gunness, starfsmaður mannréttindadeildar Sameinuðu þjóðanna, sagði í samtali við fréttastofuna að ísraelski herinn hafi vitað af skólanum. „Við gáfum þeim nákvæmar GPS-staðsetningar á skýlinu í skólabyggingunni og vildum fá tímaramma til þess að rýma bygginguna. Það fengum við ekki,“ segir Gunness.

Sameinuðu þjóðirnar hafa áður gagnrýnt Palestínumenn fyrir að nota skólabyggingar sem skýli fyrir almenning og fyrir að geyma vopn og sprengibúnað í skýlunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert