Kennsl borin á fyrsta fórnarlambið

Arnold Huizen, Yodricunda Theistiasih og dóttir þeirra Yelena Clarice Huizen …
Arnold Huizen, Yodricunda Theistiasih og dóttir þeirra Yelena Clarice Huizen voru meðal fórnarlamba þegar flugvélin hrapaði. AFP

Réttarmeinafræðingar í Hollandi hafa borið kennsl á fyrsta fórnarlambið af þeim 298 sem létust þegar flugvélin MH17 var skotið niður yfir Úkraínu í síðustu viku.

Samkvæmt tilkynningu frá hollenska dómsmálaráðuneytinu er fórnarlambið hollenskur ríkisborgari. Þegar hefur verið haft samband við fjölskyldu þess látna, en nafn fórnarlambsins var ekki gert opinbert.

Yfirvöld í Hollandi rannsaka nú lík þeirra 298 fórnarlamba sem létust þegar flugvélin var skotin niður þann 17. júlí. Af þeim voru 193 hollenskir ríkisborgarar.

Um 200 sérfræðingar vinna nú við að bera kennsl á fórnarlömbin, en í tilkynningunni segir að vinnan geti tekið marga mánuði. Ekki hafa öll líkin verið flutt af braksvæði vélarinnar í Úkraínu, en 227 lík fórnarlamba voru send hollenskum yfirvöldum til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert