Dæmdir fyrir morðtilraun á forsetanum

Rafael Correa, forseti Ekvador.
Rafael Correa, forseti Ekvador. AFP

Sex lögreglumenn voru í dag dæmdir fyrir morðtilraun á forseta Ekvador, Rafael Correa, í uppreisn lögreglumanna þar í landi árið 2010. 

Uppreisnin kom til vegna niðurskurðar á bónusgreiðslum til lögreglumanna. Þegar Correa leitaði skjóls á spítala vegna óeirðanna umkringdu lögreglumenn spítalann og þurfti hann að halda sér þar inni í tólf klukkustundir. Lögreglumenn drápu þá einn lífvarða hans og skutu á brynvarðan bíl forsetans þegar hann loks náði að yfirgefa bygginguna í fylgd öryggissveitar.

Saksóknarinn sagði myndbandsupptöku vera til af lögreglumönnunum sex þar sem þeir eru vopnaðir, með grímu fyrir andlitinu og tilbúnir að skjóta á forsetann. Eftir dóminn í dag hafa nú alls fjörtíu manns verið sakfelldir vegna þátttöku sinnar í uppreisninni.

Refsingin yfir mönnunum verður gerð ljós á næstu dögum en brotið getur varðað átta til tólf ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert