Sagði konunni að þekkja sinn stað

Recep Tayyip Erdogan
Recep Tayyip Erdogan AFP

Forsætisráðherra Tyrklands liggur nú undir gagnrýni vegna viðhorfa sinna til fjölmiðla og kvenna eftir að hann kallaði fréttamann „óskammfeilna konu“ og sagði henni að þekkja sinn stað. 

Atvikið gerðist á kappræðum vegna forsetakosninganna sem fara fram 10. ágúst nk. en forsætisráðherrann, Recep Tayyip Erdogan, er þar í framboði og þykir líklegur til sigurs.

Amberin Zaman, blaðamaður The Economist, spurði mótframbjóðanda Erdogans, Kemal Kilicdaroglu, hvort múslímskt samfélag væri fært um að efast um leiðtoga sinn. Erdogan snöggreiddist og sagði að Zaman væri óskammfeilin kona. „Uppreisnarmaður í dulargervi blaðamanns. Óskammfeilin kona. Þekktu þinn stað!" hrópaði hann á hana. „Þeir gáfu þér penna og þú skrifar dálk í dagblaði. Og þú móðgar samfélag sem er 99% múslímskt,“ sagði hann og áhorfendur púuðu í kjölfarið.

Hvergi fleiri fjölmiðlamenn í fangelsi

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Erdogan hefur skammað blaðamenn en hvergi í heiminum eru fleiri fjölmiðlamenn í fangelsi en í Tyrklandi í dag. The Economist gaf út yfirlýsingu í kjölfar atviksins og sagði fréttakonuna sem starfað hefur í fimmtán ár hjá tímaritinu vera afar virta í sínu starfi.

„Við stöndum með henni og fréttaflutningi hennar. Það á ekki að þekkjast í lýðræðisríki að fjölmiðlafólki sé ógnað. Það telst orðið mjög erfitt að sinna sjálfstæðri fréttamennsku í Tyrklandi,“ sagði í yfirlýsingunni. Þá svaraði Zaman Erdogan í grein í The Economist þar sem fyrirsögnin er „Vertu fyrst mennskur!“ „Þú ræðst á múslímska konu sem lýsir því sem þú gerir. Af því konur eru sitjandi skotmörk, ekki satt?“ sagði hún.

Viðhorf stjórnvalda í Tyrklandi gagnvart konum hefur verið til umfjöllunar eftir að aðstoðarforsætisráðherrann, Bulet Arinc, bað konur að hlæja ekki hátt á almannafæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert