Sonurinn einnig fundinn

Fjölskyldan hittist í gær. Arif er lengst til hægri á …
Fjölskyldan hittist í gær. Arif er lengst til hægri á myndinni. AFP

Indónesísku hjón­in sem end­ur­heimtu ný­lega dótt­ur sína, sem týnd­ist í flóðbylgj­unni sem reið yfir Súmötru í desember 2004, hafa nú einnig fundið son sinn.

Sonur þeirra, Arif Pratama Ragnkuti, sem rann úr greipum þeirra í flóðbylgjunni er nú 17 ára gamall. Hann hefur verið týndur í tæplega tíu ár. 

Fjölskyldan hittist á ný í gær á heimili fólksins sem fann Arif eftir að lýst hafi verið eftir honum í sjónvarpi.

Systir Arif, Raudhatul Jannah, fannst í júní. Hún var aðeins fjög­urra ára þegar hún hvarf. For­eldr­ar barn­anna höfðu gefið upp alla von um að finna börn­in sín á lífi þegar móður­bróður barn­anna kom auga á stúlku í þorpi í ná­grenn­inu sem var mjög lík Jannah. 

Í dag tilkynntu hjónin að sonur þeirra hafi einnig fundist. Þökkuðu þau umfjöllun fjölmiðla um endurfundi hjónanna og dóttur þeirra en málið vakti heimsathygli.

„Þetta er satt, hann er sonur okkar. Við erum núna að undirbúa það að fara með hann heim,“ sagði faðir drengsins við AFP. Hann sagði jafnframt að sonur þeirra hafi búið á götum Súmötru síðustu tíu árin. 

Móðir drengsins, Jamaliah, grét á meðan hún hélt í son sinn. „Ég bað á hverju kvöldi því ég trúði því innst inn að barnið mitt væri enn á lífi,“ sagði hún við fjölmiðla. 

Sonur þeirra fannst á internetkaffihúsi í bænum Payakumbuh. Par sem á kaffihúsið, hafði leyft honum að sofa á kaffihúsinu í marga mánuði og gefið honum mat og föt.

Parið hafði samband við fjölskyldu drengsins eftir að þau sáu ljósmynd af Arif í sjónvarpinu. Þau sögðust strax hafa þekkt andlit Arif.

Þegar að fljóðbylgjan skall á heimili þeirra í bænum Aceh, feyktust börnin með bylgjunni. Hjónin höfðu gefist upp á að finna börnin, sem voru fjögurra og sjö ára gömul þegar þau hurfu. 

Sjá fréttir mbl.is: „Vongóð um að finna drenginn líka“

                        „Fundu dóttur sína tíu árum síðar“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert