Kröfðust hefnda gegn Ísrael

Þúsundir söfnuðust saman á götum Gaza í dag til þess að vera viðstödd jarðarför konu og barns sem létust í loftárásum Ísraelshers í nótt.

Konan var eiginkona herforingja Hamas samtakanna, Mohammed Deif, en hún var 27 ára gömul.

Lík konunnar, sem hét Widad og sonar þeirra hjóna, Ali, sem var sjö mánaða, voru flutt í dag frá heimili fjölskyldu konunnar að mosku í flóttamannabúðunum í Jabaliya fyrir bænastund. Síðan voru þau grafin. 

Ásamt Widad og Ali fundust lík 48 ára gamallar konu og 14 ára drengs í rústunum í dag. 

Fólkið safnaðist í röð til þess að kyssa lík Ali, sem var settur ofan á lík móður sinnar inni í moskunni. Mæðgin voru vafin inn í græna Hamas fána og fólkið hrópaði „Hefnd, hefnd hefnd“ þegar að þau voru borin í kirkjugarðinn. 

Faðir Widad, Mustafa Harb Asfura var vitstola af sorg. Hann bar dótturson sinn inn í moskuna. 

„Ég er eins og allir aðrir á Gaza. Ég er ekkert öðruvísi en hinir sem hafa misst börn. Þetta er eins og flóðbylgja,“ sagði hann reiðilega. Þegar að dóttir hans giftist Deif, fyrir sjö árum síðan, óttaðist Asfura að það væri á við dauðadóm. 

„Hún vissi vel að hún myndi deyja sem píslavottur þegar hún ákvað að giftast Mohammed Deif. Ég hef beðið eftir að heyra fréttir af andláti hennar síðan“ sagði hann og bætti við að hann hafi aðeins hitt tengdason sinn einu sinni, en það var þegar þau giftust. Eftir það vissi hann ekki einu sinni hvar dóttir hans og dóttursonur bjuggu, en mikil leynd er í kringum Deif og starf hans hjá Hamas. 

Widad átti einnig tvær dætur með Deif og tvo syni frá fyrra hjónbandi. Ekki er vitað um örlög þeirra. 

Hundruðir manna komu inn í moskuna til þess að taka þátt í bænahaldi en það sást ekki til Hamas foringja eða yfirmanna. Deif var heldur ekki á svæðinu. 

Stuttu eftir jarðaförina staðfesti heimildarmaður í samtali við AFP að Deif væri enn lifandi og við stjórnvöllinn í átökum Hamas við Ísraelsher.

Talsmaður Hamas, Sami Abu Zuhri, sagði síðar í dag að Ísraelsmenn væru ekki öruggir fyrr en að Deif „ákveði það“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka