Senda erlendum flugfélögum viðvörun

Eiginkona og sjö mánaða gamalt barn Hamas leiðtogans Mohameds Deif …
Eiginkona og sjö mánaða gamalt barn Hamas leiðtogans Mohameds Deif létust í loftárásum Ísraelshers í dag. AFP

Vopnaðar sveitir Hamas í Palestínu sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þau vöruðu erlend flugfélög við þvi að fljúga til Tel Aviv frá klukkan þrjú í nótt á íslenskum tíma. Jafnframt lýsti talsmaður Hamas því yfir að friðarviðræðum milli Palestínu og Ísraels væri lokið af þeirra hálfu og hvatti hann palestínska samningsaðila til að snúa aftur heim frá Kaíró, þar sem viðræðurnar hafa farið fram.

Gríðarleg reiði hefur ríkt meðal Palestínumanna eftir að Ísraelsher drap eiginkonu og sjö mánaða gamalt barn Hamas leiðtogans Mohameds Deif í loftárásum. Samtökin segja Deif hins vegar hafa lifað árásina af, en hún var sjötta tilraun Ísraelsmanna til að ráða hann af dögum.

Ísraelski forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu sagði í dag að „leiðtogar hryðjuverkahópa væru lögleg skotmörk“ og að „enginn væri ónæmur fyrir árásum hersins“.

„Okkar stefna er eftirfarandi: Ef Hamas-liðar skjóta, svörum við af enn meiri þunga. Ef þeir skilja þetta ekki í dag þá skilja þeir þetta á morgun, og ef ekki á morgun þá daginn þar á eftir,“ sagði Netanyahu.

Minnst 2.049 manns Palestínumenn og 67 Ísraelsmenn hafa nú látist í átökum þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert