Óskar eftir hernaðaraðstoð frá ESB

Rússneski herinn er kominn inn í austurhluta Úkraínu og hefur sendiherra Úkraínu hjá Evrópusambandinu óskað eftir viðamikilli hernaðaraðstoð frá ríkjum ESB.

Forseti Úkraínu, Petro Porosénkó, hefur hætt við heimsókn til Tyrklands og segir að það sé gert á grundvelli þess að rússneskir hermenn séu komnir inn í Úkraínu. 

Bæði stjórnvöld í Kænugarði og Washington hafa greint frá því að rússneskir hermenn berjist í austurhluta landsins. 

Sendiherra Úkraínu hjá Evrópusambandinu hefur biðlað til leiðtoga ríkja ESB, sem munu hittast á fundi á laugardag, að taka ákvörðun um enn frekari refsiaðgerðir gegn Rússum, viðamikla hernaðaraðstoð og faglega aðstoð við að stöðva árásaraðilann, eins og það er orðað.

Uppreisnarmenn hliðhollir rússneskum yfirráðum hafa náð bænum Novoazovsk á sitt vald á ný og hóta því að taka völdin í hafnarborginni Mariupol. Vegna þessa hefur öryggisráð Úkraínu verið kallað saman og hefur Porosénkó boðað að strax verði komið á beinu sambandi við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Maja Kocijancic, talsmaður Catherine Ashton, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, segir að framkvæmdastjórnin hafi miklar áhyggjur af stöðu mála í Úkraínu og fréttir af innrás rússneska hersins veki ugg.

Frá Úkraínu
Frá Úkraínu AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert