Leitaði morðingjans í sjö ár

Lögregla í Buonos Aires gaf út handtökuskipun á hendur unga …
Lögregla í Buonos Aires gaf út handtökuskipun á hendur unga manninum en hann skilaði sér ekki í til lögreglu. Wikipedia

Nelida Serpico missti son sinn fyrir tæpum tíu árum. Hann var 16 ára, hafði lent í stympingum og skömmu síðar var hann skotinn í bakið þegar hann steig upp í strætisvagn í Buenos Aires. Ungi maðurinn sem hann slóst við hafði þegar í stað hótað hefndum, en sú hótun var ekki tekin alvarlega.

Vitni sögðu að maðurinn sem skaut Octavio Gomez, son Serpico, hafi verið sá sami og slóst við hann. Lögregla gaf út handtökuskipun á hendur unga manninum en hann skilaði sér ekki í til lögreglu.

Litaði hárið svart og braut eina tönn

Serpico áttaði sig á því að lögregla virtist ekki ætla að aðhafast í málinu og ákvað því að grípa til sinna ráða. Hún gekk um hverfið þar sem meintur morðingi sonar síns átti heima í sjö ár í von um að finna hann og koma honum til lögreglu.

„Síðdegis, þegar kom heim úr vinnunni, fór ég í önnur föt til að fara í hverfið, sem var langt frá heimi mínu,“ segir hún í samtali við Breska ríkisútvarpið, BBC.

Hún keypti föt, litaði hárið svart og braut meira að segja eina tönn svo hún félli betur inn í hverfinu. Hún segist hafa reynt sitt besta til að líta út eins og íbúar hverfisins og þá vildi hún heldur ekki þekkjast.

Tróð myndinni undir peysuna 

Serpico var hrædd um að vera rænd og því hafði hún aldrei tösku meðferðis. Hún tróð skissu af manninum sem hún leitaði að undir peysuna, krotaði númer máls sonar hennar á aðra höndina og númer lögreglunnar á hina. Hún sagði engum frá markmiði sínu og kom alltaf heim á réttum tíma til að elda fyrir eiginmann snin.

Það var ekki fyrr en í apríl árið 2013 sem Serpico sá manninn, sjö árum eftir að hún hóf leitina að honum. Hún hringdi þegar í stað í lögreglu sem bað hana aðeins um að hringja síðar.

Hún gafst ekki upp heldur hringdi því næst í herlögregluna, þuldi upp málsnúmerið og sagðist hafa fundið morðingja sonar síns. Herlögreglan kom fljótt á staðinn og náð manninum.

Saksóknari í málinu sagði Serpico vera hetju, venjuleg manneskja sem aldrei gafst upp.

Umfjöllun BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert