Grunur um ebólusmit í Stokkhólmi

Frá Stokkhólmi í Svíþjóð.
Frá Stokkhólmi í Svíþjóð. mynd/Norden.org

Grunur leikur á að ebólusmit hafi greinst í manni í Stokkhólmi í Svíþjóð. Þetta segir embættismaður í samtali við AFP-fréttaveituna. Fram kemur á vef Svenska Dagbladet í dag, að einn maður hafi veikst eftir að hafa heimsótt svæði þar sem ebólufaraldurinn hefur geisað.

Viðkomandi er nú haldið í sóttkví á Karolinska sjúkrahúsinu í Huddinge.

Sóttvarnalæknirinn Ake Örtqvist segir í samtali við blaðið að hættan á að þetta sé í raun ebólusmit sé algjörlega minniháttar, en hann tekur fram að menn taki hins vegar enga áhættu og nú sé farið eftir ströngu ferli.

Svenska Dagbladet segir að sérútbúinn sjúkrabifreið hafi verið send á heimili manns í Stokkhólmi til að sækja þar mann sem er grunaður um að hafa sýkst af ebóluveirunni. 

Örtqvist segir að ungur maður, sem hafi nýverið verið á ferðalagi í Afríku, liggi nú á sjúkrahúsinu. Hann ítrekar að hættan á ebólusmiti í Svíþjóð sé afar lítil. 

„Veiran dreifist ekki með lofti, hún smitast á milli manna með beinni eða óbeinni snertingu, í gegnum blóð og aðra líkamsvessa,“ segir hann.

Rétt er að ítreka þær upplýsingar sem hafa komið fram á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að:

  • Sjúkdómurinn smitast einungis við nána snertingu við veika eða látna einstaklinga en ekki með andardrætti. Einnig geta villt dýr borið veikina og smitað menn. Smit verður við snertingu við líkamsvessa eins og blóð, svita, munnvatn og þvag. Einnig getur smit orðið við óvarin kynmök og við neyslu á hráu og illa elduðum villtum dýrum eða svokölluðu „bush meat".
  • Líkur á smiti í löndum þar sem sjúkdómurinn geisar er einkum á afskekktum svæðum þar sem umgengni við veika og látna er ábótavant en líkur á smiti eru litlar á almenningsstöðum í stórborgum.
  • Veiran lifir stutt utan líkamans og þolir illa venjulegan þvott með sápu, sótthreinsandi efni, þurrk eða sólarljós. Þess vegna smitast veiran ekki á milli manna með t.d. peningum, umbúðum eða í sundlaugum.
  • Frá smiti þar til einkenna verður vart geta liðið allt að 21 dagur og eru einstaklingar á þessum tíma ekki smitandi. Einungis veikir einstaklingar smita.

Sóttvarnalæknir telur ólíklegt að ebóla muni berast til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert