Telja blóð geta hjálpað sjúklingum

Fræðimenn segja einfalda meðferð hugsanlega geta bjargað fólki sýktu af ebóluveirunni: blóð úr þeim sem hafa lifað veiruna af. Yfir 1.900 hafa látist í ebólufaraldrinum sem hefur geisað í Vestur-Afríku.

Þar sem engin bóluefni eru fáanleg segja sumir það vel þess virði að prófa að taka blóð úr þeim sem læknast hafa af lífshættulegri veirunni þar sem það inniheldur mótefni. Þetta kemur fram á fréttaveitunni AP í dag.

„Þetta er eitthvað sem er frekar auðvelt að framkvæma,“ segir Dr. Peter Piot, forstöðumaður við London School of Hygiene and Tropical Medicine, en hann var einn þeirra sem uppgötvuðu ebóluveiruna.

Að nota blóð úr þeim sem lifað hafa veiruna af er ein hugsanlegra tilraunarmeðferða við ebóluveirunni, sem er til umræðu á tveggja daga fundi um málið sem hófst í dag í Genf. Yfir 200 sérfræðingar, valdir af Alþjóðaheilbrigðismálastofnun, eru samankomnir á fundinum þar sem þeir skoða hvaða meðferðir ættu að vera settar í forgang sem mögulegar lausnir á faraldrinum. Um 6 bóluefni eru í þróun, en ekkert þeirra hefur verið prófað á mönnum. Fyrstu stig prófunar á einu bóluefnanna hófst í þessari viku í Bandaríkjunum.

Mikil athygli hefur beinst að lyfinu ZMapp, sem var gefið sjö sjúklingum, en af þeim voru tveir sem létust. Framboð lyfsins er mjög takmarkað og framleiðandi þess segir það geta tekið marga mánuði að búa til fleiri skammta.

Alþjóðlegur hópur blóð-eftirlitsaðila á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar, WHO's blood network, benti hins vegar á það að þúsundir manna hafa lifað veiruna af í Afríku, og gæti blóð úr þeim verið notað til tilrauna. Hópurinn sagði að blóð úr þessu fólki ætti að vera tekið til skoðunar sem hugsanlegt mótefni, og tilraunir ættu að vera gerðar.

Fyrstu skammtar fáanlegir í lok árs

Í skýrslu sem gefin var út í þessari viku, áætlaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnun að fyrstu skammtarnir af blóði gætu verið fáanlegir í lok ársins. Stofnunin sagðist hafa fundið nokkra sem hafa náð sér eftir veiruna sem mögulega blóðgjafa, en sögðu þó að flutningsgeta á blóði gæti verið vandamál.

Sumir vísindamenn telja mótefni í blóði eftirlifenda ebólunnar geta hjálpað sjúklingum sýktum með lífshættulegri veirunni. Mótefnin eru framleidd af ónæmiskerfi mannslíkamans til að berjast á móti vírusum. Þau haldast áfram í blóðinu tilbúin til að berjast á móti sýkingum frá sama vírusnum. 

Piot segir það nauðsynlegt að finna út hvort blóðgjafarmeðferðin muni skila árangri. „Ég vona að þetta sé seinasti ebólufaraldurinn þar sem það eina sem við getum boðið sjúklingum upp á er einangrun, sóttkví og stuðningur,“ segir hann. 

Magn mótefnis í blóði yrði mælt

Krafist verður skimunar á blóði fyrir sjúkdómum eins og HIV og malaríu. Þá yrði magn mótefnis í blóði jafnframt mælt, en sérfræðingar segja magnið geta verið mjög misjafnt eftir fólki. „Með lyfjum er að minnsta kosti hægt að passa upp á gæðaeftirlit,“ sagði Tom Geisbert, ebólusérfræðingur við University of Texas Medical Branch at Galveston. „Ef blóð er tekið beint úr fólki án þess að það sé mótefnismagnið sé mælt, hvernig getum við þá spáð fyrir um hver útkoman verði?“

Í Vestur-Afríku hafa engar skipulagðar tilraunir verið gerðar við að nota blóð úr sjúklingum sem lifað hafa af til að meðhöndla sjúklinga. Blóð úr 14 ára gömlum dreng sem lifði veiruna af var gefið bandaríska lækninum Kent Brantly í júlí, en hann var sýktur af veirunni í Líberíu. Brantley var einnig gefið ZMapp, en hann var útskrifaður af sjúkrahúsi í Atlanta í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Ekki er vitað hvort lyfið eða blóðið úr drengnum hafi læknað hann.

Blóð verið notað áður til meðferðar

Blóð hefur áður verið notað við sjúkdómum eins og fuglaflensunni og miltisbrandi, en það hefur virst virka best í sjúkdómum þar sem eiturefni komast í líkamann eins og miltisbrandi og stífkrampa.

Til að meðhöndla ebólu „þarf að koma upp með hversu mikið á að gefa, hversu lengi og hversu hratt er öruggt að dæla því,“ sagði Dr. Michael Kurilla, forstöðumaður BioDefense í heilbrigðismálastofnun Bandaríkjanna. „Ef við vitum hver virknin er í blóðmagninu er tæknilega séð hægt að hjálpa líkamanum að losa sig við veiruna áður en mikill skaði er skeður.“

Dr Colin Brown, sem nýlega vann á ebólustöðvum í Síerra Leóne sagði sjúkrahúsin geta boðið upp á blóðið ef læknar vildu nota það. Nú hafa fleiri en 3.000 verið sýktir af veirunni, og í seinustu viku áætlaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnun að 20.000 til viðbótar gætu sýkst áður en faraldurinn gengi yfir. „Þetta gefur okkur tækifæri á að prófa nýjar meðferðir,“ sagði Brown. „Svo lengi sem þær valda ekki skaða, hvers vegna ættum við þá ekki að prófa eitthvað sem gæti mögulega hjálpað sjúklingum og kennt okkur ýmislegt í leiðinni?“

Ebóla hefur dregið hátt í 2.000 manns til dauða.
Ebóla hefur dregið hátt í 2.000 manns til dauða. AFP
Sérfræðingar ræða saman á fundinum sem hófst í dag.
Sérfræðingar ræða saman á fundinum sem hófst í dag. AFP
Dr. Peter Piot
Dr. Peter Piot AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert