Skýtur fyrst — spyr þingið svo

Síðustu sex árin hefur Barack Obama einsett sér að sjá til þess að sín verði minnst sem forsetans sem batt enda á stríð Bandaríkjanna í löndum múslíma en í fyrrakvöld ávarpaði hann þjóð sína til að útskýra hvers vegna hann hefði ákveðið að hefja nýtt stríð í Mið-Austurlöndum.

Obama kvaðst ætla að auka umfang lofthernaðarins gegn Ríki íslams, samtökum íslamista sem hafa náð stórum svæðum í Írak og Sýrlandi á sitt vald. Markmiðið væri að „draga mátt úr samtökunum og tortíma þeim að lokum“. Forsetinn lagði áherslu á að hann hygðist ekki hefja landhernað og nýja stríðið væri því ólíkt loftárásunum og innrásunum sem forveri hans, George W. Bush, hóf í Írak og Afganistan. Bandaríkin myndu efla bandamenn sína – svo sem stjórnarher Íraks, hersveitir Kúrda og „hófsama“ uppreisnarmenn í Sýrlandi – til að gera þeim kleift að leggja undir sig svæði sem lofthernaður Bandaríkjahers beinist að. Hann hvatti þingið til að heimila hernum að þjálfa og vopna hófsama uppreisnarmenn í Sýrlandi.

Obama telur að Bandaríkin geti ekki unnið fullnaðarsigur á samtökum íslamistanna í löndunum tveimur án þess að hersveitir heimamanna, einkum súnníta, leggi svæðin undir sig. Ella sé hætta á að ný öfgasamtök nái svæðunum á sitt vald eftir að hernaði Bandaríkjanna lýkur.

Markmiðin metnaðarfull – en nást þau?

Fréttaskýrandi The Financial Times segir þó að mjög óljóst sé hvernig Obama geti náð markmiðum sínum í Írak og Sýrlandi. Markmiðin séu „ótrúlega metnaðarfull“ en leiðin sem hann valdi til að ná þeim sé mjög varfærnisleg. Hætta sé á að hernaðurinn verði aðeins hálfkák og beri ekki tilætlaðan árangur.

Embættismenn Obama segja að forsetinn þurfi ekki að óska eftir sérstakri heimild þingsins til að fyrirskipa hernaðinn. Obama sagði að hann myndi fagna stuðningi þingsins en gaf til kynna að þingið þyrfti ekki að samþykkja hernaðinn.

Stríðsforseti?

Að sögn fréttaskýranda The Guardian, Spencer Ackerman, eru jafnvel stuðningsmenn Obama undrandi á lagalegum rökstuðningi hans fyrir því að „skjóta fyrst, spyrja þingið svo“. Hann hefur eftir bandarískum lögspekingum að rökstuðningurinn orki mjög tvímælis.

Ackerman bendir á að Obama fyrirskipaði lofthernað í Líbíu árið 2011 án þess að leita fyrst eftir samþykki þingsins. „Þótt Obama kunni að líta á sig sem vörn gegn látlausu stríði Bandaríkjanna – og pólitískir andstæðingar telji hann ekki nógu herskáan – þá segja aðgerðir hans aðra sögu.“ Ackerman skírskotar til þess að Obama hefur framlengt hernað Bandaríkjanna í Afganistan, heimilað CIA og sérsveitum að gera árásir í Pakistan, Jemen, Sómalíu og Líbíu, auk lofthernaðarins í Líbíu árið 2011 og nú í Írak og Sýrlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert