Vinstriflokkarnir með 44,8% fylgi

Kosningum til sænska þingsins lauk klukkan 18:00 að íslenskum tíma og benda útgönguspár til þess að vinstriflokkarnir hafi haft sigur í þeim auk Svíþjóðardemókrata sem boða einkum harða stefnu í innflytjendamálum.

Fram kemur í frétt AFP að vinstriflokkarnir undir forystu jafnaðarmanna hafi fengið 44,8% fylgi samanlagt samkvæmt útgönguspá sænska ríkisútvarpsins. Svíþjóðardemókratar hafi hins vegar fengið 10,5% sem er aukning upp á 5,7% frá síðustu kosningum. Ríkisstjórn Fredriks Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtoga Hægriflokksins, sem stýrt hefur Svíþjóð undanfarin átta ár er samkvæmt því á útleið en samtals fær fylking miðju- og hægriflokka 39,7% samkvæmt spánni.

Verði niðurstaðan með þessum hætti verður næsti forsætisráðherra Svíþjóðar væntanlega Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. Reinfeldt hefur verið hrósað mjög fyrir að hafa stýrt Svíum farsællega í gegnum efnahagskrísuna í heiminum en stjórnmálaskýrendur telja að verði ríkisstjórn hans hafnað sé það fyrst og fremst vegna þess að kjósendur telji tímabært að breyta til eftir átta ára valdatíma ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert