Ákærð fyrir sonarmorð

Singapúr
Singapúr AFP

Rúmlega fertug kona í Singapúr hefur verið ákærð fyrir morð á sjö ára gömlum einhverfum syni sínum. Lík drengsins fannst fyrir neðan fjölbýlishúsið sem þau bjuggu í.

Að sögn lögreglu er Koh Sook Hoon ákærð fyrir að bera ábyrgð á dauða sonar síns en hann fannst látinn síðdegis á laugardag eftir hátt fall. Drengurinn bjó ásamt foreldrum sínum, ömmu og tólf ára gömlum bróður í íbúð á níundu hæð hússins. 

Málið hefur vakið hörð viðbrögð meðal íbúa í Singapúr og hafa fjölmargir lýst yfir samúð við móðurina og beðið þess að lífi hennar verði þyrmt verði hún fundin sek. Hefur meðal annars verið sagt að það væri nær að veita henni geðræna aðstoð, ráðgjöf og stuðning til langs tíma í stað þess að taka hana af lífi. Er bent á það á samfélagsvefjum að það geti reynst þrautin þyngri að eiga börn sem annaðhvort eru fötluð eða eiga við erfiðleika að stríða. Nær sé að veita foreldrum aðstoð í stað þess að refsa þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert