Hollande beiti sér gegn brennuvörgum

François Hollande forseti Frakklands.
François Hollande forseti Frakklands. AFP

17 bílar í franska smábænum Halluin, nærri belgísku landamærunum, hafa verið brenndir af skemmdavörgum síðustu tvær vikur. Hefur það leitt til þess að Gustvave Dassonville, bæjarstjóri í bænum, hefur biðlað til Francois Hollance, Frakklandsforseta um að grípa til aðgerða. 

Hlutfall brenndra bíla er afar hátt þegar horft er til þess að einungis búa um 20 þúsund manns í bænum. Oft á tíðum hefur litlu mátt muna að eldur í bílunum hafi náð að festa sig í nærliggjandi húsum. Dassonville segir að bærinn líti út eins og Beirút á níunda áratugnum. Hvarvetna séu bílar brunarústir einar. „Hvað er ríkið að gera? Ekkert,“ segir Dassonville og gagnrýnir hann frönsk yfirvöld fyrir að leika alþjóðalögreglu í Írak og Sýrlandi á meðan ekkert sé aðhafst heima fyrir. 

Sú einkennilega afbrotahefð hófst á 10.áratugnum að leggja eld að bílum í Frakklandi. Undanfarin áramót hafa 1500-2000  bílar orðið fyrir barðinu á vörgunum.

Ungmenni eru talin bera ábyrgð á flestum brununum. Hafa yfirvöld gripið til þess ráðs að birta ekki tölur frá einstaka hverfum um brennda bíla til þess að ala ekki á samkeppni á milli gengja sem stunda slíka iðju.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert